Það var í nógu að snúast hjá Hlyni Ársælssyni rekstrarstjóra uppsjávarfrystihúss Eskju á Eskifirði þegar slegið var á þráðinn til hans. Enda hrygnufrysting í góðum gangi fyrir japanska kaupendur og undirbúningur fyrir hrognatöku ekki langt undan. Eskju hafði borist farmur af fallegri loðnu frá Guðrúnu Þorkelsdóttur SU og allar vinnufúsar hendur á lofti.
„Það er alltaf svo gaman á loðnu. Þetta er svo stuttur tími og mikil vinna. Mér finnst þetta skemmtilegustu vertíðirnar og öll þjóðin fylgist með framvindunni eins og íslenska handboltalandsliðinu á stórmóti,“ segir Hlynur.

- Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju. Mynd/Þorgeir Baldursson
Hrygnan er orðin fýsileg til frystingar fyrir Japansmarkað enda hrognafyllingin komin í 16-17%. Þannig vill Japaninn fá hana frysta en vill hana helst ekki sé hrognafyllingin minni.
Frá tveimur fyrirtækjum
„Það eru sjö Japanir hérna núna og hafa verið frá síðustu mánaðamótum að fylgjast með. Þeir eru þrír frá fyrirtæki A og tveir frá fyrirtæki B sem kaupir svo frystu loðnuna af fyrirtæki A. Þetta eru því fulltrúar heildsölufyrirtækis annars vegar og smásölufyrirtækis hins vegar. Þeir vanda sig við þetta Japanirnir og eins gott að við, framleiðandinn, stöndum okkur í stykkinu,“ segir Hlynur.
Þeir eru mættir niður á bryggju um leið og loðnu er landað og fylgjast grannt með. Þeir ganga úr skugga um hvert hlutfallið er af hrygnu í pokanum. Hlutfall hrygnu í aflanum er að jafnaði 80-85%. Japanirnir skoða líka hvort áta sé í loðnunni og hvernig ferskleikinn er.

- Jón Kjartansson SU-111, eitt skipa Eskju, að landa loðnu inn til vinnslunnar. Mynd/Þorgeir Baldursson
Í uppsjávarvinnslu Eskju eru flokkarar sem skilja hænginn frá hrygnunni. Hrygnan er smærri en hængurinn og fellur fyrr niður á sjálfvirkum flokkaranum.
Hængurinn til manneldis
„Við höfum líka verið að frysta aðeins á aðra markaði en Japan en nú er áherslan að færast meira yfir á Japan. Þeir taka allt sem býðst. Við vinnum núna líka hluta af hængnum til manneldis á markaði í Austur-Evrópu. Það fer ekki nema um fjórðungur af hængnum í bræðslu núna, annað er fryst. Þetta fer aðallega til Úkraínu en við misstum út Rússlandsmarkað þegar Ísland ákvað að taka þátt í heimspólitíkinni.“
Eskja var búin að taka við um 45 þúsund tonnum af loðnu frá eigin skipum um síðustu helgi og þar af höfðu verið fryst um 3.000 tonn. Einnig hafði fyrirtækið tekið á móti um 10.000 tonnum frá norskum og grænlenskum skipum bæði til manneldisvinnslu og bræðslu. Hlynur segir ekki mikið magn hafa verið fryst ennþá enda sé frystingin fyrst núna að komast í almennilegan gang. Hlynur segir að upp úr mánaðamótunum megi búast við því að hrognataka fari í gang. Þá verður hrognafyllingin komin yfir 20% og hrognin farin að losna úr hrognapokanum.
„Það byrja samt örugglega margir í fyrra fallinu núna í hrognafrystingunni því þeir hafa verið að bæta afköstin frá í hrognafrystingu frá fyrri vertíðum. Við höfum til að mynda fjárfest mikið í hrognabúnaði og getum núna skorið þrefalt það magn sem við gátum áður. Þess vegna er hugsanlegt að menn byrji aðeins fyrr en áður og jafnvel áður en hrygnan hefur náð fullum þroska. Japanirnir eru okkur mikilvægir kaupendur en það eru líka aðrir markaðir sem hrognin fara á.“