Frá því japönsk hvalveiðiskip lögðu úr höfn í Ayukawa í apríl sl. hafa þau veitt 30 hrefnur. Þetta er í fyrsta sinn sem Japanir veiða hrefnur frá því Sameinuðu þjóðirnar bönnuðu veiðar þeirra á miðum við Suðurskautið í mars sl.
Veiðarnar eru liður í vísindarannsóknum Japana en Alþjóðadómstóll Sameinuðu þjóðanna úrskurðaði í mars sl. að veiðarnar væru viðskiptalegs eðlis en með yfirbragð vísindaveiða.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, reitti hvalfriðunarsinna til reiði fyrr í þessum mánuði þegar hann sagði á þingi að hann myndi beita sér fyrir því að Japanir hæfu hvalveiðar í atvinnuskyni á ný. Sagt er frá þessu á vef The Guardian.