Fjármála- og viðskiptaráðuneyti Japans hefur samþykkt innflutningsleyfi fyrir 65 tonnum af hvalkjöti frá Íslandi og Noregi.
Kjötið hefur beðið mánuðum saman í frystigámum eftir tollafgreiðslu. Ekki hefur fengist leyfi til að leysa kjötið úr tolli í Japan fyrr en nú.
Um er að ræða 5 tonn af hrefnukjöti frá norska fyrirtækinu Myklebust Trading og 60 tonn af langreyðarkjöti frá Íslandi. Kjötið er af langreiðum veiddum af Hval, samkvæmt heimildum íslenskra stjórnvalda, og var flutt út í Japans í júní í sumar.
Kristján Loftson, forstjóri Hvals ,sagði í morgun í samtali við fréttastofu ríkisútvarpsins að ótímabært væri að tjá sig um málið.
Breska útvarpið BBC hefur eftir háttsettum embættismanni í fjármála- og viðskiptaráðuneytinu í Tókýó að þótt innflutningsleyfi hafi verið samþykkt eigi eftir að ganga frá heilbrigðisvottorði fyrir kjötið þannig að það geti enn dregist að lokaniðurstaða fáist, jafnvel nokkra vikur.