Makrílveiðar Íslendinga vekja mikla athygli og umræðu erlendis. Flestir gagnrýna þessar veiðar að vísu en nú síðast fengu Íslendingar stuðning frá Søren Søndergaard sem er Evrópuþingmaður fyrir samtök í Danmörku sem berjast gegn aðild landsins að ESB. Í grein sem Søren ritar í dagblaðið Arbejderen fjallar hann um vaxandi vantraust á ESB meðal íbúa aðildarríkjanna og hann klikkir út með því að segja að jafnvel makríllinn treysti ekki ESB.
Søren gerir að umtalsefni nýja skoðanakönnun sem mælir traust fólks til ESB. Þar kemur fram að í 27 aðildarríkjum ESB beri aðeins 42% traust til ESB en 47% lýsi yfir vantrausti. Í sumum löndum lýsi meira en helmingur vantrausti á ESB, svo sem 54% íbúa í Þýskalandi, 56% í Grikklandi og 68% í Bretlandi.
Søren fjallar síðan um fiskveiðistjórn ESB og segir að þar sé allt í kaldakolum og nefnir nokkur dæmi máli sínu til stuðnings. Hann víkur einnig að makríldeilu Íslands og ESB og vitnar til þess að vísindamenn segi að með hlýnandi sjó hafi makríllinn farið í stríðum straumi norður á bóginn. Søren hefur þó aðrar skýringar á þessu háttalagi makríls og setur það í samhengi við slaka fiskveiðistjórn ESB. Hann lýkur grein sinni með þessum orðum: ,,Með þetta í huga skilur maður vel að makríllinn hafi ákveðið að yfirgefa ESB!“