Samkvæmt niðurstöðum rannsókna Haraldar Einarssonar fiskifræðings varðandi kjörhæfnimælingar á T90 þorskpoka með DynIce Quicklínukerfinu frá Hampiðjunni, eru kostirnir við að nota slíkan poka umtalsvert meiri miðað við venjulegan tveggja byrða þorskpoka. Þetta kemur fram í frétt á vef Hampiðjunnar.

Rannsóknirnar fóru fram um borð í ísfisktogaranum Helgu Maríu AK fyrir skömmu en auk Haraldar og áhafnar togarans tóku tveir rannsóknamenn og sérfræðingur frá Hampiðjunni þátt í þeim.

T90 pokinn er fjögurra byrða, felldur á DynIce Quicklínur, með 155 mm þvernetsmöskva en til samanburðar var notaður hefðbundinn 155mm þorskpoki í tveimur byrðum.

Utan yfir pokana var svo fínriðið net með poka fyrir aftan sem safnaði saman þeim fiski sem smaug út í gegnum möskvana. Þess má geta að Hampiðjan hefur sótt á einkaleyfi á framleiðslu og sölu á umræddu kerfi og er sú umsókn nú í vinnslu.

,,Þessi nýi poki tjaldar nánast öllum þeim atriðum sem geta aukið kjörhæfni en einnig gæði fisksins sem veiðist.

Vinnslumenn segja okkur að fiskur, sem veiðist í þennan poka, sé síður blóðmarinn þótt við sjáum þess ekki greinileg merki úti á sjó,“ segir Haraldur en meðal þess sem tekið var eftir við rannsóknina var að stærsti hluti undirmálsfisks fer úr pokanum.

Helmingurinn af þorski sem var rétt undir 56 cm langur fór út um möskvana en það hlutfall hækkaði hratt eftir því sem fiskurinn var smærri. En í tveggja byrða poka með samskonar möskva á síðu var um 9 cm hliðrun eða 47 cm þorskur sem fór út að helmingi og því var mun meira af smáfiski í þeim poka. Sjá nánar á vef Hampiðjunnar .