Bráðbirgðaniðurstöður úr leiðangri rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar sýna ívið meira magn og vestlægari útbreiðslu makríls við Ísland en í fyrra sem er jafnframt hæsta gildi síðan athuganirnar hófust árið 2009. Síld fannst einnig nokkuð víða á rannsóknasvæðinu.

Alls voru teknar 82 fyrirfram ákveðnar rannsóknastöðvar þar sem tekin voru stöðluð tog í efstu lögum sjávar með flottrolli til að meta magn makríls. Jafnframt yfirborðstogum voru umhverfisþættir mældir og átusýnum safnað með háfum. Í ár var 11 sinnum togað dýpra þar sem kolmunna varð vart og á 5 stöðvum voru framkvæmd samanburðartog. Bergmálsgögnum var safnað á milli rannsóknarstöðva til að meta magn síldar og kolmunna.


Makríl var að finna úti fyrir Austurlandi, með suðurströndinni og upp með Vesturlandi en lítið sem ekkert var vart við hann norður af landinu. Bráðbirgðaniðurstöður sýna ívið meira magn og vestlægari útbreiðslu makríls við Ísland en í fyrra sem er jafnframt hæsta gildi síðan athuganirnar hófust árið 2009.



Síld fannst nokkuð víða á rannsóknasvæðinu, norsk-íslensk síld austur og norður af Íslandi og íslensk sumargotssíld fyrir sunnan og vestan.

Norður af Íslandi varð vart við töluvert af norsk-íslenskri síld allt að Vestfjarðamiðum. Skörun á útbreiðslu síldar og makríls var mest austan við land en einnig töluverð á grunnslóð sunnan og vestan lands þar sem makríll var í bland við íslenska sumargotssíld.



Leiðangursstjórar í leiðangrinum voru Guðmundur J. Óskarsson í fyrri hluta og Sigurður Þ. Jónssson í þeim seinni og skipstjórar voru Heimir Örn Hafsteinsson í fyrri hluta og Guðmundur Bjarnason í þeim seinni.