Á alþjóðlegu sjávarútvegssýnungunni AquaNor, sem haldin verður í Þrándheimi í Noregi í næstu viku, kynna iTUB og Sæplast nýja lausn í laxaflutningum. Nýja aðferðin byggir á hringrásarkerfi þar sem lax er fluttur í margnota umbúðum frá laxaframleiðendum til vinnslna í Evrópu og Bandaríkjunum.
„Í Evrópu eru framleidd um 2 milljónir tonn af laxi árlega og er stór hluti þess fluttur í einnota umbúðum. Við höfum hannað lausn þar sem laxaframleiðendur nota margnota ker til að flytja laxinn frá eldi í vinnslur. Þetta er skilvirkari og sjálfbærari leið,“ segir Hilmar Svavarsson, framkvæmdastjóri i-TUB um nýju lausnina.
Hann segir að með því að nota ker í stað einnota umbúða sé hægt að draga verulega úr plastnotkun. Sem dæmi, þá þurfi 1 milljón tonn af plasti til að flytja 30 milljónir tonna af laxi með einnota umbúðum. Til að flytja sama magn með kerum þarf aðeins rúm 20 tonn, sem er 98% sparnaður. Kerin framkalli einnig betri nýtingu á hvert plasttonn. Mögulegt er að flytja 1.467 tonn af laxi með kerum en aðeins 29 tonn með einnota kössum, sem er 50 sinnum betri nýting.
Þríþættir kostir
Framleiðendur og dreifingaraðilar hafa tekið þessari nýjung fagnandi.
„Kostir tvíburakeranna eru þríþættir. Í fyrsta lagi sýnir lífsferilsgreining, sem framkvæmd var af Háskóla Íslands, að hægt er að spara allt að 80% í kolefnislosun með því að nota tvíburaker í stað einnota umbúða. Í öðru lagi er fjárhagslegur sparnaður. Í þriðja lagi, þá er í sumum tilfellum hægt að flytja allt að 50% meira magn af laxi í gámi með tvíburakeri í stað einnota umbúða,“ segir Bragi Smith, sölustjóri hjá iTUB.

Hann segir að tvíburakerin endist í 12-15 ár og geti flutt allt að 100,000 kg af laxi yfir líftíma kersins. Í dag sé um 30% endurunnið plast í nýju tvíburakerunum sem framleidd eru af Sæplast á Dalvík. Tvíburakerin séu einföld í þrifum og sótthreinsun. Þegar kerin hafa lokið hlutverki sínu séu þau kurluð niður og endurunnin í ný ker.
„Tvíburakerin, sem margnota flutningsumbúðir, gefa okkur leið til að uppfylla strangari reglugerðir frá hollenskum stjórnvöldum og Evrópusambandinu. Það þarf að auka hringrás og sjálfbærni. Fyrir okkur er iTUB fullkomið svar við þessu – og einnig fyrir viðskiptavini okkar sem gera sömu kröfur. Þannig að þetta kemur bæði frá stjórnvöldum og viðskiptavinum,“ segir Hans Kamerik, gæðastjóri hjá Adri & Zoon sem er rótgróið og traust fjölskyldufyrirtæki í Hollandi sem sérhæfir sig í innflutningi, vinnslu og dreifingu á ferskum sjávarafurðum til fagkaupenda um alla Evrópu.
Í stað þess að nota einnota umbúðir fyrir hverja sendingu, leigja laxaframleiðendur kerin frá iTUB. Sótthreinsuð ker eru afhent til laxaframleiðenda. Þau eru síðan notuð til að flytja heilan (HOG – slægðan lax með haus) til kaupanda sem eru staðsettir víðs vegar um Evrópu. Eftir að kerin hafa verið tæmd, eru þau þrifin og sótthreinsuð vandlega. Kerunum er síðan aftur komið til laxaframleiðenda þar sem hringrásin hefst á ný.

„Við höfum framkvæmt prófanir með viðskiptavinum okkar í Evrópu með góðum árangri. Því ákváðum við að taka skrefið með iTUB. Við byrjuðum í febrúar á þessu ári og bættum tvíburakerunum við vöruframboðið okkar með von um að viðskiptavinir taki þessu vel,“ segir Kristján Rúnar Kristjánsson, rekstrarstjóri laxavinnslu hjá Arctic Fish.
Vinna vel með EPS frauðkössum
Tvíburakerin vinna vel með EPS frauðkössum sem hafa verið notaðir í áratugi. Með því að nýta bæði ker og kassa samhliða má auka skilvirkni og framleiðni í flutningum og vinnslu. Lausnin kemur því ekki í stað EPS-kassa, heldur gerir kerfið heildstæðara og árangursríkara.
„Ástæðan fyrir því að við förum í Tvíburakerin er að það er skilvirkara fyrir okkur – við getum pakkað hraðar. Við erum með pökkunarlínur fyrir bæði EPS-kassa og ker og getum því framleitt bæði samtímis. Við getum líka sent meira í einu með kerunum,“
segir Ástþór Ryan, sölu- og flutningastjóri hjá Arctic Fish.
Prófanir stóðu yfir í um eitt ár þar sem lax var fluttur frá Arctic Fish í Bolungarvík til Adri & Zoon, sem er stór laxakaupandi í Hollandi. Rannsóknir hafa sýnt að laxinn kemur í fullum gæðum á áfangastað. Í kjölfarið hefur Adri & Zoon hafið magnflutninga á laxi með tvíburakerunum í vinnslur sínar í Hollandi.
„Við höfum velt fyrir okkur í mörg ár hvernig við getum flutt laxinn skilvirkari til Hollands. Ef þú notar ker í stað pólýkassa, þá erum við að gera heiminn betri. Við getum notað kerin aftur og aftur, ekki bara einu sinni eins og pólýkassana, og því er þetta betri saga fyrir alla,“segir Adri Bruijnooge, eigandi Adri & Zoon.
Tvíburakerin verða kynnt á AquaNor (standur #F-573), sem verður haldin í Þrándheimi í Noregi dagana 19.-21. ágúst. Þar verður hægt að kynna sér lausnina, sjá niðurstöður flutninga og heyra frá þeim aðilum sem þegar hafa tekið þátt í þróun og innleiðingu á þessari nýju lausn.