Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ógilti í desember ákvörðun Fiskistofu um að svipta bát veiðileyfi vegna ítrekaðs brots. Báturinn hafði verið seldur annarri útgerð milli brota og skipstjórinn var ekki sá sami og þegar fyrra brot var framið.

Fiskistofa hefur því ákveðið að breyta verklagi sínu, eða stjórnsýsluframkvæmd eins og það heitir á stofnanamáli, þannig að ítrekunaráhrif laga fylgi ekki lengur bátnum heldur útgerðinni.

„Fiskistofa bendir á að þetta getur haft það í för með sér að fái eitt skip útgerðar áminningu geti viðurlög við síðari brotum annarra skipa sömu útgerðar leitt til harðari viðurlaga en við fyrri stjórnsýsluframkvæmd þar sem litið verður á slík brot sem ítrekuð brot sömu útgerðar,“ segir í tilkynningu Fiskistofu.

„Í ítrekun felst að sami aðili gerist sekur um brot oftar en einu sinni,“ segir ráðuneytið í úrskurði sínum, og bendir á að tilgangur ítrekunaráhrifa sé að hafa varnaðaráhrif vegna fyrri viðurlaga. „Ekki verður séð að þeim tilgangi yrði náð ef ítrekunaráhrif vegna skriflegrar áminningar sem veitt er útgerð væri ætlað að fylgja skipi við eigendaskipti eða breytingu á útgerðaraðila.“