Ítalskir neytendur virðast stöðugt leita meira í mat eins og reyktan lax, sushi og hráan fisk í sósum, svonefnt poke, að því er fram kemur í nýrri rannsókn.
Sushi og lax eru nú með vinsælustu réttum á ítölskum veitingastöðum og sumir þessara rétta skáka nú næstum kjötréttum í vinsædlum, segir í rannsókninni sem norska sjávarútvegsráðið stóð fyrir.
Mikil eftirspurn er eftir reyktum laxi og sushi sem og laxi sem uppistöðu í poke-réttum. Hvergi eru fleiri sushi-staðir í Evrópu en á Ítalíu. Í Mílanó eru þeir svo margir að borgin er nú í fararbroddi í heiminum hvað varðar fjölda sushi-staða miðað við höfðatölu. Því til viðbótar eru í borginni um 1.000 veitingastaðir þar sem poke-skálar eru helstu atriðin á matseðlinum. Búist er við því að staðirnir verði orðnir 1.500 í lok þessa árs.
Vegna vinsælda sushi og poke-rétta er Ítalía nú orðið þriðja stærsta útflutningsríki Norðmanna þegar kemur að laxi. Nærri 10% af allri laxaframleiðslu Norðmanna endar á diskum Ítala. Metið er að Ítalir hafi neytt nærri 140.000 tonna af norskum laxi á síðasta ári í samanburði við 84.000 tonn á árinu 2017.