,,Okkur hefur gengið mun betur að búa til peninga úr minni tegundum, t.d. ýsu, flatfiski, ufsa. Virði þessara tegunda er kerfisbundið hærra hér á landi heldur en í Noregi," segir Daði Már Kristófersson, hagfræðingur hjá Háskóla Íslands en hann hélt fyrirlestur á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna í dag.
Í erindi sínu bar Daði saman íslenskan og norskan sjávarútveg sem hann sagði samanburðarhæfan sökum tegundasamsetningar, veiðistjórnunar, tæknistigs og vinnsluhefða en ólíkan hvað varðar framsalsmöguleika, markaðsfyrirkomulag og þjóðhagslegt mikilvægi.
Daði sagði að hér á landi væri rekin svokölluð markaðsdrifin virðiskeðja meðan í Noregi væri virðiskeðjan veiðidrifin. Munurinn á þessu tvennu sé fyrst og fremst sá að í markaðsdrifinni virðiskeðju einbeittu útgerðir sér að hámarka hagnað en í veiðidrifinni markaðskeðju væri fyrst og fremst hugsað um magn og að lágmarka kostnað.
„Ef við berum saman niðurstöðuna hér og í Noregi sjáum við að markaðsdrifin virðiskeðja skilar um 10 milljörðum meira á ári en veiðidrifnar virðiskeðju. Ég held að það sé ekki hægt að kalla þetta auðlindarentu. Þetta er skapað með fjárfestingu, m.a í kvóta, markaðsstarfi, mannauði og tækni. Eins og auðlindarentan er reiknuð í dag er enginn þessara þátta tekinn inn í fjármagnsþörf fyrirtækjanna,“ sagði Daði Már.