Gamla breska orðatiltækið að selja kol til Newcastle (hliðstæðan við það að selja sand til Sahara eða kaffi til Brasilíu) hefur fengið nýja merkingu, að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum Fishupdate.com.
Bresk sendinefnd er á leiðinni til Íslands til þess að kanna möguleikann á auknum viðskiptum milli landanna, m.a. á því að selja aftur hingað fisk sem íslensk skip hafa veitt hér við land og fluttur hefur verið til Grimsby. Um er að ræða reykta ýsu sem er hefðbundin og þekkt framleiðsluvara í Grimsby.
Með í för verða matreiðslumenn frá Bretlandi sem kynna vöruna og vonast er til þess að íslenskir stórmarkaðir sýni áhuga á að hafa hana á boðstólum á næsta ári.