Ekki liggur fyrir hver verður endanlegur loðnukvóti Íslendinga á þessari vertíð, en ef tekið er mið af fyrstu mælingu Hafrannsóknastofnunar á loðnustofninum á þessu ári má gróflega ætla að heildarkvótinn verði tæp 600 þúsund tonn, þar af komi um 400 þúsund tonn í hlut íslenskra skipa, að sögn Friðriks J. Arngrímssonar framkvæmdastjóra LÍÚ.
Loðnumælingum er ekki lokið þannig að ef meira mælist á næstunni má gera ráð fyrir auknum kvóta miðað við það sem nú er í spilunum.
Til upprifjunar má nefna að á síðustu loðnuvertíð var aflinn 322 þúsund tonn, árið þar áður 111 þúsund tonn og á árinu 2009 var eingöngu leyft að veiða 15 þús. tonn í rannsóknaskyni.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum. Þar er einnig rætt við Jón Axelsson skipstjóra á Júpíter ÞH um veiðarnar.