Íslenskt sjávarfang og lambakjöt verða í aðalhlutverki í fjölmennri matarveislu sem haldin verður í húsakynnum þýsku verslunarkeðjunnar Frischeparadies í Berlín þann 1. september nk. Veislan er liður í kynningarátaki Frischeparadies á ferskum íslenskum hágæða afurðum sem stendur yfir í septembermánuði. Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Berlín eru samstarfsaðilar Frischeparadies í þessari kynningu. Markmiðið er að kynna íslenskt hráefni og vekja almenna athygli á Íslandi og íslenskri matarmenningu, að því er fram kemur í frétt frá Íslandsstofu .
Boðið verður upp á sjö rétta matseðil þar sem fimm réttir eru úr íslensku hráefni og mun Þráinn Freyr Vigfússon, núverandi fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins og matreiðslumaður ársins árið 2007, elda einn þessara rétta. Hina réttina elda þekktir þýskir matreiðslumenn. Nú þegar er uppselt í matarveisluna sem rúmar 300 manns og er þar um að ræða bæði boðsgesti auk almennings.
Frischeparadies er stór dreifingaraðili á ferskum og kældum afurðum til þýskra smásölukeðja. Fyrirtækið hefur um all nokkurt skeið valið ferskar sjávarafurðir frá Íslandi sökum hreinleika, gæða og ábyrgrar nýtingar á fiskistofnum hér við land. Keðjan er aðili að markaðsverkefninu Iceland Responsible Fisheries.
Samhliða heimsókn sinni til Berlínar mun Þráinn Freyr elda íslenskan þorsk í matreiðslu-þættinum Berlin Kocht. Sendiherra Íslands í Þýskalandi, Gunnar Snorri Gunnarsson, mun vera Þráni til halds og trausts í útsendingunni og kynna íslenskar matvörur fyrir þýskum matgæðingum en um 180 þúsund Berlínarbúar horfa vikulega á þáttinn.