Skrifað var undir samning milli Íslenska sjávarklasans og kóresku sjávarvísinda- og tæknistofnunarinnar, KIMST, um samstarf á sviði fullnýtingar sjávarafurða á fundi sem Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans, átti með forsvarsmönnum þessara stofnana í Seul í Suður-Kóreu í síðustu viku. Þór segir mikla möguleika á meiri nýtingu sjávarfangs hjá þessari miklu sjávarútvegs- og fiskneysluþjóð og samstarfið geti opnað dyr fyrir íslenskt hugvit á sviði fullvinnslu.
Aðferðafræði sem spyrst út
Þór var aðalræðumaður á 500 manna samkomu í borginni þar sem viðstaddir voru meðal annarra sjávarútvegsráðherrar Suður-Kóreu og Pakistans. Íslenski sjávarklasinn hefur látið að sér kveða einnig í Bandaríkjunum þar sem klasar að íslenskri fyrirmynd hafa tekið til starfa í Portland í Maine og nú síðast fylkja sem eiga land að Vötnunum miklu.
Fyrr á árinu komu tvær sendinefndir frá Suður-Kóreu og áttu fundi með forsvarsmönnum Íslenska sjávarklasans.
„Samstarfið við Suður-Kóreu er þannig til komið að aðferðafræðin spyrst út. Víða hefur ekki verið hugað að þessum málum en þeim mun meira að minnkandi fiskveiðum. Færri fiskflök verða til en þá höfum við sagt að málið snúist ekki einvörðungu um flökin heldur allt hitt. Í Suður-Kóreu hitti ég fulltrúa fjölmargra landa sem kváðust aldrei hafa hugsað á þessum nótum. Ég held líka að Suður-Kórea sé land sem við Íslendingar ættum að horfa til í ríkari mæli varðandi viðskipti og önnur samskipti. Þetta er opið og auðugt samfélag og þarna eru tækifæri,“ segir Þór.
Milljón tonn illa nýtt eða hent
Hvað samstarfið við klasana í Bandaríkjunum varðar hafa fulltrúar íslenskra tæknifyrirtækja og þekkingarstofnana, eins og Marel, Curio og Matís, verið með í ráðum og í samskiptum við samstarfsaðila Íslenska sjávarklasans. Þór segir að samstarf af þessu tagi geti opnað dyrnar fyrir íslenska sérþekkingu á sviði fullvinnslu.
„Sjávarafli í Suður-Kóreu eru um þrjár milljónir tonna á ári og samkvæmt því sem mér var sagt er ein milljón tonn af því illa nýtt eða hent. Þarna felast því mikil tækifæri. Þeir hafa til dæmis hugmyndir um að efla vinnslunnar og gera þær að hátæknivinnslum sem geti gert meiri verðmæti úr afurðunum. Þarna sjáum við að við þurfum að gera út teymi sérfræðinga frá Íslandi með fulltrúum frá til dæmis Marel og Matís, sem geta ýtt þessari þróun af stað.“
Von er á sendinefndum frá Suður-Kóreu hingað til lands aftur í vetur og verður þá stofnað til kynna milli þeirra og samstarfsaðila Íslenska sjávarklasans, þ.e. íslenskra hátæknifyrirtækja og þekkingarstofnana.
„Þjóð eins og Suður-Kórea hefur allt til að bera til þess að feta sömu leið og við nema ef til vill hugarfarið. Þarna eru stórar rannsóknastofnanir, öflugir háskólar og mikið fjármagn til að hrinda breytingum af stað. Okkar hlutverk er að fá þá til að skoða hvernig virkja megi fleiri nýsköpunarfyrirtæki, tengja háskólana betur við greinina sjálfa og koma þeim af stað,“ segir Þór.