Atvinnuvegaráðuneytið gaf í dag út reglugerð um loðnuveiðar á komandi vertíð. Samkvæmt henni er kvóti Íslendinga 126.831 tonn. Eftir að búið er að draga frá 6.722 tonn vegna „pottana“ verður 120.109 tonnum skipt milli skipa með loðnuheimildir.
Eins og áður hefur komið fram lögðu vísindamenn til nýlega að heildarloðnukvótinn yrði 260.000 tonn, þannig að hlutur Íslands er aðeins 49% af þeirri tölu. Eins og kom fram í Fiskifréttum í síðustu viku er ástæðan fyrir því hversu stóra sneið af kökunni erlendar þjóðir fá að þessu sinni sú að hlutur þeirra, samkvæmt samningum, er reiknaður út frá bráðabirgðaaflamarki sem Alþjóðahafrannsóknaráðið birti í maí sl. (byggt á ungloðnumælingum haustið 2013) sem hljóðaði upp á 450 þús. tonn. Reikningar verða síðan gerðir upp síðar, en heildarkvótinn verður að venju endurskoðaður í byrjun næsta árs þegar veiðistofninn verður mældur aftur.