Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt hækkaði um 0,4% í nóvember síðastliðnum. Þetta byggir á útreikningi IFS-greiningar m.v. tölur um framleiðsluverð í nóvember sem Hagstofan birti í morgun.
Afurðaverð lækkaði hratt í upphafi ársins 2009 og náði lágmarki í mars 2009 líkt og margar aðrar hrávörur á heimsvísu. Afurðaverð hefur smám saman hækkað frá og með öðrum fjórðungi 2009. Nú er verðið 6% hærra en í mars mælt í erlendri mynt. Tölurnar fyrir nóvember gefa vísbendingu um að aðstæður á mörkuðum erlendis séu að batna og betra jafnvægi að myndast, segir IFS-greining.
Sjófrystar afurðir og mjöl hækka
Sjófrystar botnfiskafurðir hafa hækkað í verði undanfarið og það skýrir þessa hækkun í nóvember að hluta til. Þess ber að geta að sjófrystu afurðirnar lækkuðu mjög mikið í fyrra.
Verð á fiskimjöli er sögulega hátt og hefur hækkað mikið undanfarið. Mjölverð er nú 1.600 USD/tonn. Það er því mikið í húfi fyrir íslensku sjávarútvegsfyrirtækin að loðnan finnist nú á vetrarvertíðinni.
Afurðaverð í erlendri mynt er nú álíka hátt og um mitt ár 2006. Núverandi verð er að mati IFS-greiningar ásættanlegt fyrir flest íslensku sjávarútvegsfyrirtækin