Vignir G. Jónsson hf. á Akranesi hefur ákveðið að setja grásleppuveiðar á Íslandi í vottunarferli samkvæmt staðli MSC. Íslenska vottunarstofan Tún mun annast verkið.

Í frétt frá MSC er haft eftir Eiríki Vignissyni framkvæmdastjóra Vignis G. Jónssonar hf. að aðalmarkaðurinn fyrir grásleppuhrognaafurðir sé í Norður-Evrópu þar sem eftirspurn eftir MSC-vottuðum vörum sé mikil. Viðskiptamenn fyrirtækisins hafi óskað eftir því að grásleppuhrognin væru vottuð af MSC og í framhaldi af því hafi áðurnefnd ákvörðun verið tekin.