„Við erum ekki búnir að kasta, það var bræla akkúrat þegar við komum,“ segir Þór Þormar Pálsson, fyrsti stýrimaður á Vilhelm Þorsteinssyni EA frá Samherja, sem kom á kolmunnamiðin við Rockall í gær.

Þegar rætt var við Þór fyrir hádegi í gær sagði hann að von væri á því að veðrið lægði. „Við náum kannski eitthvað að komast í gang þegar líður á daginn.“

Þór segir að á mánudaginn hafi kolmunnaskipin sem fyrir voru á svæðinu að fengið í kringum 200 tonn í holi eftir sex til sjö klukkutíma. „Það er eiginlega að megninu til veiði í myrkrinu,“ segir hann.

Ætlunin hjá áhöfn Vilhelms Þorsteinssonar er að vera á Rockall-svæðinu þar til þeir

hafa náð að fylla. Þór segir erfitt að áætla hversu langan tíma það kunni að taka. „Við áttum okkur ekki alveg á því sérstaklega ef veiðin verður ekki öflugri og síðan er veðrið ekki að hjálpa held ég alveg fram yfir helgi.“

Þriggja sólarhringa sigling

Börkur og Beitir verða við kolmunnaveiðar á Rockall-svæðinu. MYND/HELGI FREYR ÓLASON
Börkur og Beitir verða við kolmunnaveiðar á Rockall-svæðinu. MYND/HELGI FREYR ÓLASON

Í gær, var Beitir NK frá Síldarvinnslunni einnig á leið á Rockall og gert ráð fyrir að skipið yrði komið á svæðið í gærkvöldi. Systurskip Beitis, Börkur NK, mun einnig á leið þangað suður eftir.

„Þetta er þriggja sólarhringa sigling. Þetta er mjög langt að fara,“ segir Þór um þann tíma sem fer í að komast á miðin. Þetta sé þó ekki endilega það lengsta sem menn fari frá Íslandi til að komast á miðin. „Það getur verið langt í makrílinn þegar menn fara austast og nyrst í Smugunni.“

Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar hjá Síldarvinnslunni, segist ekki vita til þess að íslensku uppsjávarskipunum almennt verði stefnt á Rockall-svæðið. „En þeir lukkuðust vel í fyrra þessir túrar sem við tókum þarna og tóku snöggt af,“ segir hann.

Færeyska lögsagan aftur í apríl

Grétar Örn Sigfinnsson.
Grétar Örn Sigfinnsson.

Kolmunninn er að sögn Grétars tiltölulega nýlega kominn yfir línuna á alþjóðlegt svæði. Þarna séu nú mörg norsk skip að veiðum. „Ég held að það séu þokkalega aflabrögð þarna núna en ekkert meira en það í augnablikinu.“

Þegar veiðinni þarna ljúki sé fram undan að fara aftur í færeysku lögsöguna í apríl og maí eins og vanalega. „Svo tökum við í haust í íslensku lögsögunni, í Rósagarðinum og endum svo kannski í færeysku í desember ef það er eitthvað eftir. En við reynum náttúrlega að taka eins mikið í íslensku og við getum.“

Vonleysi gagnvart loðnu

Nú dregur að lokum loðnumælinga leiðangurs sem hófst laugardaginn 8. febrúar. „Ég er búinn að vera rosalega bjartsýnn í allan vetur en ég held að þetta sé eiginlega vonlaust,“ segir Grétar spurður um hverjar hann telji vera horfurnar varðandi loðnuna.

„Ég veit ekki hvað þeir mæla núna en það þarf náttúrlega bara að koma vestanganga til að það mælist nógu mikið til að það verði gefinn út kvóti. Þeir eru búnir að vera í einhverri loðnu en svona vestarlega er þetta örugglega bara mikið ungloðna. En þeir eru þarna enn þá.“