Flækjustigið í fiskveiðisamningum við aðrar þjóðir er hvergi meira en í loðnu. Þótt Íslendingar eigi rétt á 81% af heildarloðnukvótanum eru aflaheimildir íslenskra skipa ekki nema um 49% af heildinni eins og staðan er í dag. Frá þessu er greint í nýjustu Fiskifréttum.

Kvóti í íslenska loðnustofninum skiptist milli þriggja strandríkja, Íslands, Grænlands og Noregs. Samkvæmt samningi milli landanna kemur 81% kvótans í hlut Íslands eins og áður sagði, Grænland er með 11% og Noregur með 8%.

Þessi hlutföll raskast þó við upphafsúthlutun að vori vegna sérstakra ákvæða í samningnum. Noregur og Grænland fá þá sína hlutdeild af áætluðu heildaraflamarki að fullu.  Mun minna kemur í hlut Íslands þar sem upphafskvótinn er aðeins helmingur af áætluð aflamarki. Gert er ráð fyrir að hlutur Íslands réttist þegar stofnmælingum á loðnu er lokið. Náist það ekki fá Íslendingar leiðréttingu á næstu loðnuvertíð á eftir.

Þá má geta þess að eftir að skipting milli strandríkja hefur átt sér stað láta Íslendingar frá sér töluverðan loðnukvóta vegna fiskveiðisamninga við Norðmenn og Færeyinga sem skerðir veiðiheimildir íslenskra skipa í loðnu.

Sjá nánar fréttaskýringu í nýjustu Fiskifréttum.