Alls voru keyptu Íslendingar um 4.200 tonn af iðnaðarrækju frá Noregi á árinu 2010 á móti 3.200 tonnum árið 2009, að því er fram kemur í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskeribladet/Fiskaren.

Þar segir að rækjuiðnaðurinn á Íslandi sé sem fyrr stór kaupandi á iðnaðarrækju á norskum mörkuðum. Íslendingar hafi ekki látið það aftra sér þótt verðið hafi hækkað um tvær krónur norskar á kílóið.

Ísland hefur um árabil verið stærsti kaupandi á rækju frá Noregi. Íslenski rækjuiðnaðurinn hefur verið þýðingarmikill til að halda upp verðinu sem norskir sjómenn fá, að sögn blaðsins. Tekið er fram að Norðmenn fái þetta þó í bakið því að þeir þurfi að mæta samkeppni frá íslenskum rækjuafurðum á mörkuðum erlendis. Sérstaklega í Noregi þar sem Íslendingar njóti þess að greiða lægri tolla en Norðmenn.

Fram kemur að rækjuiðnaðurinn á Íslandi hafi keypt nærri 600 tonn af iðnaðarrækju frá Noregi það sem af er þessu ári. Á sama tíma í fyrra hefði íslenski rækjuiðnaðurinn ekki verið byrjaður að kaupa rækju.

Alls keyptu Íslendingar um 4.200 tonn af rækju á árinu 2010 á móti 3.200 tonnum árið 2009. Hækkun á útflutningsverði rækju á síðasta ári ræður mestu um það að verð á iðnaðarrækju í Noregi hefur hækkað úr 13,44 krónum norskum (284 ISK) árið 2010 í 15,35 krónur í ár (324 ISK), að dómi blaðsins.

Toppárið í útflutningi á rækju frá Noregi til Íslands var árið 2008 en þá keyptu Íslendingar rúm 8.000 tonn af norskri rækju.