Blaðið The Namibian hefur eftir embættismanni að fulltrúar héraðssaksóknara á Íslandi sem staddir hafa verið í Namibíu séu þangað komnir til að reyna að komast að því hvort sönnunargögn séu fyrir því að einhverjir Íslendingar eigi þátt í mútu- og spillingarmáli því sem þar er nefnt Fishrot.
The Namibian segir að Spillingarmálastofnunin, The Anti-Corruption Commission (ACC), hafi greint frá því síðastliðinn föstudag að íslenskir rannsakendur og saksóknarar væru komnir til Namibíu til að kanna hlut landa sinna í spillingar- og hneykslismálinu Fishrot. Þetta hafi forstjóri stofnunarinnar, Paulus Noa, staðfest.
Liðsinna stjórnvöldum ytra
Segir The Namibian að Noa hafi sagt íslenska hópinn liðsinna stjórnvöldum í Namibíu við að fletta ofan af mögulegri aðkomu Samherja og tiltekinna einstaklinga tengdum fyrirtækinu að málinu. Ástæða þess að þeir eru í Namibíu sé sú að á Íslandi séu þeir að rannsaka hvort Íslendingar eða íslensk fyrirtæki sem bendluð hafi verið við Fishrot tengist spillingarmálinu í raun og veru.
Haft er eftir Noa að markmið sé að afhjúpa sönnunargögn og tryggja að einstaklingar sem tengist Fishrot verði saksóttir, óháð þjóðerni þeirra, í samræmi við lagabókstaf beggja landanna.
Líka glæpur á Íslandi
„Í þeirra eigin landi er þetta spillingarmál einnig glæpur og ef þeir finna sannanir sem tengja landa þeirra við málið munu þeir örugglega verða sóttir til saka sömuleiðis,“ er áfram haft eftir Noa.
Þá rifjar Noa upp að sendinefnd frá Namibíu sótti Ísland heim fyrir um ári síðan. Nefndin hafi verið leidd af varaforsætisráðherranum Netumbo Nandi-Ndaitwah og hlutverk hennar hafi verið að sannfæra saksóknara á Íslandi um að heimila framsal þriggja íslenskra yfirmanna hjá Samherja til Namibíu. Sé þar um fyrrverandi starfsmenn að ræða.
Nánar má lesa um málið í frétt The Namibian frá í gær.