,,Íslendingar eru og munu verða sjóræningjar nútímans og það er ekki á dagsskrá að láta þá ræna meiri makríl,“ segir Reidar Nilsen forustumaður Norges Fiskarlag, heildarsamtaka í norskum sjávarútvegi, í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren í dag.
Norski sjávarútvegsráðherrann, Lisbeth Berg-Hansen, hélt í fyrradag fund með forsvarsmönnum samtaka í norskum sjávarútvegi og verkalýðssamtökunum til þess að kynna stöðuna í makríldeilunni og ræða stefnumörkun í frekari viðræðum.
Audun Maråk framkvæmdastjóri samtaka norskra útgerðarmanna (Fiskebåt) segist hafa verið ánægður með fundinn með ráðherranum og ekkert sem bendi til þess að ríkisstjórnin ætli að gefa meira eftir í viðræðunum.
Maråk segir nýja rannsóknir sýna að göngur makrílsins séu að færast meira norðaustur á bóginn í átt til Noregs og það muni trúlega leiða til þess að minna verði um makríl í íslenskri lögsögu. Stofninn sé sterkur og því sé ekki hundrað í hættunni þótt ekki náist samningar strax.