Ítarleg umfjöllun var um íslensku sjávarútvegssýninguna IceFish sem haldin var í september síðastliðnum í vefútgáfu kanadísku sjónvarpsstöðvarinnar CBC News. Í umfjölluninni er fiskimönnunum Alton Rumbolt frá Labrado og Tony Doyle frá Nýfundnalandi fylgt eftir og upplifun þeirra af nýjungum í sjávarútvegi.
„Við erum svo langt á eftir á mörgum sviðum, Það opnast nýjar víddir að koma hingað og sjá hve langt þeir hafa náð. Hér er svo mikið af nýrri tækni sem ég hafði ekki hugmynd um að væri til fyrr en á þessari sýningu,“ segir Rumbolt.
Í greininni segir að Rumbolt sé einn margra fiskimanna frá Nýfundnalandi og Labrador sem eru að búa sig fyrir þorskveiðar og líti til Íslands sem fyrirmyndar í þeim efnum.
Aflaheimildir í þorski við Nýfundnaland og Labrador séu hvergi nærri jafnmiklir og aflinn sem berst að landi á Íslandi en bundnar séu miklar vonir við að þorskstofninn sé að braggast þar.
Tony Doyle frá Nýfundnalandi var einnig á sýningunni til að kynna sér nýjungar. Þar fjárfesti hann í sjálfvirkum DNG handrúllum sem framleiddar eru á Íslandi.
„Íslenskir sjómenn eru með fjórar til sex rúllur og þeim fylgir tölvuforrit sem tryggir að einhverjir krókar eru alltaf í sjó meðan fiskur er losaður af öðrum.“
Rumbolt var líka á höttunum eftir meiri sjálfvirkni en um leið eftir afkastameiri veiðarfærum en handfærarúllunum. Hann hafði augastað sjálfvirkri beitningarvél.
„Hún kallar ekki á jafn margar vinnandi hendur og það sem veldur okkur erfiðleikum núna er að manna bátinn,“ segir Rumbolt.
Þjóð sem kennir sig við ís en vill síður nota ís
Í greininni segir að Basil Goodyear frá Lumsden á Nýfundnalandi hafi tekið þessa tækni í notkun á sínum bát. Undanfarin 20 ár hafi hann aðallega verið við krabba- og rækjuveiðar en mjög hafi dregið úr afla og hann sjái þorskveiðar fyrir sér í framtíðinni.
Þá vakti athygli greinarhöfunds tækni sem hefur verið þróuð á Íslandi til að kæla fisk um borð. Þar er sagt frá vélinni Optimice frá fyrirtækinu Kapp ehf. sem býr til krapa úr sjó og kælivökva. Vélin kemur í stað íss um borð og dregur úr álagi á mannskap.
„Það kemur á óvart að ekki vilja allir nota ís við fiskmeðhöndlun í landi sem kennir sig við ís,“ segir í umfjölluninni. Í framhaldinu er minnst á Rotex kælikerfið frá Skaginn 3X á Ísafirði. Í kerfinu er nýveiddur fiskur kældur í sjó í 40-50 mínutur án þess að nota þurfi ís.