Ísleifur VE 63 lagði upp í sína síðustu siglingu frá Vestmannaeyjahöfn í gær. Ferðinni er heitið til Esbjerg í Danmörku þar sem skipið verður rifið niður, fer í pottinn alræmda. Skipið var smíðað í Chile og var afhent HB á Akranesi árið 2000. Þá hét það Ingunn AK 150. Vinnslustöðin keypti skipið af HB Granda sumarið 2015 og fékk það þá nafnið Ísleifur VE 63.
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að hirða allt heillegt úr skipinu, utan þess sem þarf til siglingarinnar út. Þegar þangað verður komið verður farið í að fjarlægja það sem eftir er úr skipinu og það fer svo í framhaldinu í niðurrif.
Skipið kom til Vinnslustöðvarinnar, sem fyrr segir, árið 2015, frá HB Granda. Skráð lengd er 65,18 metrar, breidd 12,6 metrar og er hann rétt tæp 2.000 brúttótonn. Vélin er MAK 5.870 hestöfl.
Að sögn Eyjólfs Guðjónssonar skipstjóra, voru gerð mistök í smíðinni. Skipið var talsvert þyngra en systurskipin, og úr varð að það þurfti að lengja skipið vegna þess, svo að það héldi stöðuleika.