Útflytjendur þurfa að sameinast um að nýta jákvæða ímynd Íslands til þess að skapa íslenska þorskinum sérstöðu á erlendum mörkuðum, að mati Helga Anton Eiríkssonar forstjóra Iceland Seafood.

Helgi flutti erindi á markaðsdegi fyrirtækisins í síðustu viku þar sem m.a. var til umræðu hvernig bregðast ætti við stórauknu framboði á þorski úr Barentshafi á þessu ári. Helgi sagði að á sama hátt og Nýja-Sjáland væri þekkt sem land lambakjötsins og Noregur land laxins þyrfti að vinna að því að neytendur tengdu saman þorskinn og Ísland.

,,Við Íslendingar eru með tromp á hendi sem við höfum ekki spilað út. Það er jákvæð ímynd Íslands. Ísland er tákn ferskleika og ómengaðrar náttúru. Við erum með besta veiðikerfið og erum eina þjóðin við Norður-Atlantshaf þar sem raunveruleg tenging er milli veiða og vinnslu. Við getum þar af leiðandi þjónað markaðnum alla daga ársins,“ sagði Helgi Anton Eiríksson.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.