Saltfiskhátíðin í Ilhavo í Portúgal er sú stærsta sem haldin er árlega þar í landi. Búist er við rúmlega 200.000 gestum á hátíðina í ár sem stendur í fimm daga, 17.-21. ágúst nk. Íslandi hlotnast sá heiður að taka þátt í hátíðinni í ár og skipuleggur Íslandsstofa þátttökuna.

Hjá Íslandsstofu hefur verið í gangi markaðsverkefni frá árinu 2013 sem gengur út á að kynna saltaðar þorskafurðir á Spáni, Portúgal og Ítalíu undir slagorðinu „Prófaðu og deildu leyndarmáli íslenska þorsksins“ en 23 fyrirtæki eru þátttakendur í því verkefni. "Markmið þess verkefnis er að treysta stöðu saltaðra þorskafurða í Suður Evrópu og í Portúgal er það  Lissabon og svæðið norður af borginni sem er áherslumarkaður fyrir íslenska saltfiskinn" segir Guðný Káradóttir, forstöðumaður sviðs matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar hjá Íslandsstofu í frétt á vef stofunnar.

Íslandi er boðin þátttaka í hátíðinni á grundvelli vinabæjartengsla Ilhavo og Grindavíkur.

Sjá nánar á vef Íslandsstofu.