Fjögur fyrirtæki innan Íslenska sjávarklasans hlutu um miðjan janúar viðurkenningu fyrir að hafa skarað hafa framúr við að efla samstarf við önnur fyrirtæki. Navis hlaut viðurkenningu fyrir að efla samstarf tæknifyrirtækja um hönnun á umhverfisvænum skipum. Evris fyrir að efla samstarf við ýmis fyrirtæki innan klasans um þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum.  Iceland Sustainable Fisheries fyrir að hafa komið á víðtæku samstarfi útgerða um vottun á sjávarafurðum. Þá hlýtur Knarr Maritime viðurkenningu fyrir að efla samstarf tæknifyrirtækja um heildstæðar skipalausnir fyrir alþjóðarmarkað.

Þetta er fjórða árið sem Íslenski sjávarklasinn veitir þessar viðurkenningar. Tilgangurinn með viðurkenningunum er að hvetja fyrirtæki til að efla samstarf sín í milli og styrkja þannig enn frekar Ísland sem forystuland í sjávarútvegi.

Evris

Evris ehf er íslenskt ráðgjafafyrirtæki sem vinnur með alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu Inspiralia. Saman vinna þessi tvö fyrirtæki að því að aðstoða íslensk fyrirtæki í nýsköpun við að koma vörum á alþjóðlega markaði. Aðstoðin felst í að sækja erlenda styrki til vöruþróunar og undirbúnings markaðssetningar. Inspiralia er stórt fyrirtæki en þar vinna um 120 fastráðnir sérfræðingar auk lausráðinna sérfræðinga. Þá er Inspiralia með öflugt samstarfsnet fyrirtækja í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar, þ.m.t Evris ehf sem er samstarfsaðili þeirra hér á landi.

Frá því Inspiralia kom inn á íslenskan markað, í júní 2016, hefur fyrirtækið náð að afla evrópskra styrkja til 28 íslenskra fyrirtækja en þar af hafa tvö þeirra fengið styrki að upphæð tæplega tvær milljónir evra hvort um sig. Hingað til hafa Evris og Inspiralia lagt áherslu á að kynna íslenskum fyrirtækjum evrópska styrkjamöguleika en á þessu ári verða kynntir til sögunnar fleiri þjónustuþættir Inspiralia. Fyrst ber að nefna aðstoð við að stofna nýsköpunarfyrirtæki í BNA og sækja þróunarstyrki til þarlendra stjórnvalda. Einnig verður boðið uppá aðstoð við að sækja erlenda fjármögnun og útvegun fjárfesta. Þá verður fyrirtækjum og stofnunum gefinn kostur á að taka þátt í stórum alþjóðlegum þróunar- og vísindaverkefnum.

Samstarf fyrirtækjanna fer fram á fundum hérlendis og erlendis, skype-fundum og eftir ýmsum öðrum leiðum en um dagleg samskipti er að ræða. Evris og Inspiralia halda reglulega kynningarfundi fyrir íslensk fyrirtæki um erlenda styrkjamöguleika og starfsfólk Inspiralia eru tíðir gestir á Íslandi enda vinnur það náið með þeim fyrirtækjum sem njóta aðstoðar þeirra.

Samstarf fyrirtækja hér á landi er mjög mikilvægt en það er ekki síður mikilvægt að íslensk fyrirtæki vinni með erlendum fyrirtækjum til að víkka út starfsemi og styrkja samkeppnishæfni sína.

Samstarf Evris og Inspiralia hefur verið mikilvæg viðbót við stuðningskerfi í nýsköpun og frumkvöðlastarfi hér á landi. Sérfræðiþekking Inspiralia hefur reynst íslenskum fyrirtækjum verðmæt ekki síður en þeir erlendu styrkir sem fyrirtækið hefur sótt og aflað fyrir íslensk fyrirtæki.

Iceland Sustainable Fisheries

„Á síðustu árum hefur verið virkilega gott samstarf milli Iceland Sustainable Fisheries (ISF) og skrifstofu Marine Stewardship Council (MSC) á Íslandi. Stjórn ISF markaði félaginu þá stefnu árið 2014 að íslenskar fiskveiðar hlytu vottun um sjálfbærni samkvæmt MSC staðlinum fyrir tegundir sem eru veiddar af íslenskum fiskiskipum,” segir Kristinn Hjálmarsson, verkefnastjóri hjá Iceland Sustainable Fisheries.

„Þar sem bæði fyrirtækin eru staðsett innan Íslenska sjávarklasans hefur verið auðvelt með samstarf en það þarf mikla og sérhæfða þekkingu á vottunar- og staðlaumhverfinu til að geta fylgt metnaðarfullu markmiði um svo víðtæka sjálfbærnivottun íslenskra fiskveiða. Það hefur því verið ómentanlegt fyrir verkefnastjórana hjá ISF að geta unnið með Gísla Gíslasyni, sem er svæðisstjóri hjá MSC og því vel kunnugur breiðgötum, öngstrætum og botnlöngum í MSC staðlinum og starfsemi þessara stóru samtaka sem eru með höfuðstöðvar sínar í London. Það hefur óneitanlega sparað sporin að geta rölt út ganginn til að leita skilnings eða svara, frekar en að eiga í samskiptum við mannmarga stofnun í London.

Það er óhætt að segja að verkefnið, að sækja um, afla og viðhalda MSC vottunum fyrir íslenskar fiskveiðar, hafi verið öruggara og aðgengilegra ferli með stuttum boðleiðum milli ISF, sem sækir um vottanir og á sjálfbærniskírteinin og MSC (sem á og þróar staðalinn sem fiskveiðarnar þurfa að standast til að hljóta vottun. Frá árinu 2012 hefur hlutfall MSC vottaðra fiskveiða farið úr engu í 90%.

Smæð Íslands styttir allar boðleiðir, sem eins og annað, hefur sína kosti og galla. Hröð framvinda og möguleiki ISF til að sækja um og fá staðfestar vottanir á veiðum íslenskra fiskiskipa, byggir náttúrulega á því að íslensk fiskveiðistjórnun hefur verið ábyrg og miðað í áttina að sjálfbærni undanfarin ár. Á helstu mörkuðum fyrir íslenskan fisk vilja verslanakeðjur sýna ábyrgð og kaupa ekki sjávarfang sem hefur ekki fengið vottun um sjálfbærni á alþjóðalegum staðli. Þessi alþjóðlega krafa neytenda myndar mikinn þrýsting á sjávarútveg um allan heim að byggja upp og sýna fram á sjálfbæra starfsemi sína. Hugarfarið um sjálfbærni var til í íslenskum fiskveiðum og fiskveiðistjórnun áður en hugtakið “sjálfbærni“ varð til, enda höfðu Íslendingar orðið vitni að því að auðlindir hafsins eru ekki óþrjótandi. Þegar ráðherra ákvað það, um árið að veiðiráðgjöf myndi ákvarðast af ráðgjöf Hafró, en ráðast ekki af pólitík, þá var stórt sjálfbærniskref stigið. Traustar stoðir Hafró, Fiskistofu, Landhelgisgæslunnar og skýr stefna stjórnvalda eru mikilvægar, þar er gott starf unnið. Það er þess vegna sem það hefur gengið rösklega að fá staðfesta MSC vottun um sjálfbærar fiskveiðar íslenskra skipa.

Í okkar tilviki hefur aðgengi að þekkingu og kunnáttu verið feiknalega mikilvæg og verið einn helsti kostur samstarfsins. Þegar við tölum um samstarf, þá er það kannski óþarflega formlegt hugtak um það að spyrja spurninga og leita lausna sem gerist á stuttum fundum, í tölvupóstum og með því að stinga höfðinu innúr dyragætt og spyrja t.d. „er það rétt skilið hjá mér að…?“.

Navis

Verkefnið snýst um að NAVIS ásamt Naust Marine, Íslenska sjávarklasanum/Green Marine Technology, Röfnum og Marvel ætlar að leiða hönnun á fyrsta hybrid-, eða tvinn-línuveiðibátnum á Íslandi. Hugmyndin er að hanna frá grunni 15 metra línubát sem gengur fyrir rafmótor, með orku frá rafgeymum eingöngu eða frá dieselaflstöð með rafali eða samvinnu beggja, allt miðað við hámarks nýtni. Síðar jafnvel fyrir rafmagni og metanólbrennslu á aflstöðinni,  en þá væri hægt að gera bátinn alfarið út með íslenskri orku.  Í stað þess að setja þennan búnað í eldri bát verður nýr bátur hannaður frá grunni þannig að hægt sé að nýta til fulls þá möguleika sem þessi tækni býður upp á. Hugmyndin að þessari umsókn kviknaði í framhaldi af meistaraverkefni sem ungir verkfræðinemar við Chalmers háskólann í Gautaborg unnu hér í Sjávarklasanum undir leiðsögn frá NAVIS ehf.

Það bendir allt til þess að með þessari hybrid tækni megi draga úr eldsneytiskostnaði um 30-50% miðað við dieselolíu og þannig minnka kolefnisfótspor tilsvarandi og, sé farið út í brennslu á metanóli, verður hægt að minnka kolefnisfótsporið enn meira. Með þessari hybrid tækni er hægt að slökkva á dieselmótornum þegar komið er á miðin og nota hljóðlausan og mengunarlausan rafmótor á meðan veiðar fara fram. Það fer svo eftir aðstæðum hverju sinni hvort menn nota rafgeyma eða aflstöðina til að komast aftur í land.

Samstarfið hefur í stuttu máli skilað markvissari og skilvissari samskiptum milli hinna ýmsu aðila en orðið hefði, ef þessi fyrirtæki hefðu ekki verið svo náin, bæði efnislega og huglægt. Staða verkefnisins er nú þannig að allir samstarfsaðilar eru, hver um sig, nokkuð meðvitaðir um sitt hlutverk í þessari nýsköpun, og Navis, sem hefur hingað til verið leiðandi í framtakinu, hefur þegar gert talsverðar frumathuganir, bæði varðandi upplýsingar/staðreyndir (data and state of the art) og á vettvangi og lagt línurnar um áframhaldandi vinnu.

Samstarf fyrirtækjanna hefur hingað til farið fram með nánum og stöðugum samskiptum, á netinu, síma og einnig munnlega þar sem nokkur fyrirtækjanna eru með vinnuaðstöðu í Sjávarklasanum. Einnig er kallað saman til funda í Klasanum þegar nauðsyn þykir bera til.

Náið samstarf er ekki endilega mikilvægara hér er annarstaðar, en mikilvægt er það engu að síður. Samstarfið sem við höfum hér og þá sérstaklega í svona Klasa er ef til vill af öðrum toga en annarstaðar. Samstarfið getur orðið frjálslegra, menn hittast á göngunum og taka tal saman og auðvelt er að koma sér í samband við samstarfsaðilana. Það eina sem þarf að huga að er að halda öðrum samstarfsaðilum í upplýsingaflæðinu, en það er lítill vandi ef fólk er meðvitað um það.

Knarr

Knarr var stofnað sem markaðsarmur fyrir fyrirtækin, Naust Marine, Skagann3X, Frost, Brimrúnu, Nautic og Skipatækni.  Knarr mun markaðssetja vörumerki þessara fyrirtækja sem heildarlausn fyrir fiskiskip,  TURN-KEY lausn.

Knarr hóf starfsemi í maí 2017 og var aðal markmiðið í byrjun að ráðast inn á rússneska markaðinn þar sem mikil endurnýjun skipaflotans er fram undan.

„Það eru 7 skip komin til Íslands sem er í þessari línu skipa með ENDURO BOW stefninu, þ.e. Drangey, Björgúlfur, Björg, Kaldbakur, Engey, Akurey og Viðey.  Þau eru hönnuð af Nautic og Skipatækni.  Skipaverkfræðingar þeirra fyrirtækja eru Alfreð Tulinius og Bárður Hafsteinsson.  Þessi skip hafa komið mjög vel út og eru að miklu leyti með búnað frá Knarr fyrirtækjunum.  HB Granda systurnar Engey, Akurey og Viðey eru með einhverja fullkomnustu ferskfiskvinnslu sem völ er á og eru þessi skip með heildarlausn frá öllum Knarr fyrirtækjunum.  Vinnslan frá Skaganum 3X er byltingarkennd aðferð til að ná hámarks afurðagæðum og sjálfvirki lestarbúnaðurinn hefur vakið heimsathygli,“ segir Haraldur Árnason, framkvæmdastjóri Knarr.

„Seint á síðasta ári bar markaðsátakið í Rússlandi árangur þegar stærsta útgerðarfyrirtæki Rússlands NOREBO gerði samning um smíði 6 skipa eftir teikningu Nautic.  Skipin eru 81m á lengd og 16 metra breið. Mikill áhugi er á þessari hönnun skipa og eru fyrirspurnir frá mörgum löndum sem verið er að vinna í þessa dagana.  Það má segja að Knarr samstarfið sé að skila þeim árangri sem ætlast var til hægt og bítandi.  Slík skipa- og landvinnsluverkefni eru tímafrek og langir vinnudagar ekkert óalgengir meðal Knarr fyrirtækjanna síðustu mánuði,“ segir Haraldur.

Fyrirtækin vinni sína markaðsvinnu eins og þau hafi alltaf gert.  Þegar komi að tilbúnum fiskiskipalausnum og landvinnsluverkefnum vinni fyrirtækin mjög náið saman, sæki fundi og sýningar þar sem tækifærin eru að finna.

„Það er alltaf erfitt fyrir eitt fyrirtæki að komast inn í einstök verkefni en mörg þeirra hafa samt komist inn í einstaka skipasmíðasamninga sem íslensk fyrirtæki hafa farið í undanfarin ár.  Hins vegar eru fyrirtækin alltaf sterkari saman, þá sérstaklega þegar um heildarlausnir er að ræða erlendis.  Þessi fyrirtæki hafa sýnt og sannað að þau eru í fremstu röð í heiminum hvert á sínu sviði og hafa skapað sér gott nafn.  Á þessu byggjum við Knarr, að nýta sérstöðu þessara fyrirtækja og koma því á framfæri undir einu vörumerki; KNARR MARITIME.

Kostirnir við samstarfið eru margir. Við vinnum eins og gott íþróttalið, stefnum allir í sömu átt og erum klárlega sterkari saman. Við erum að vinna í ýmsum öðrum málum til að styrkja innviðina og keypti Nautic 51% hlut í verkfræðistofu í Pétursborg sem mun bera nafni Nautic Russia. Hún mun sjá um alla teiknivinnu vegna Norebo verkefnisins og önnur verkefni sem koma á komandi misserum.  Þarna munu starfa 14 rússneskir skipaverkfræðingar sem hafa góða reynslu innan rússneska skipaklassans.  Sömuleiðis stofnuðum við fyrirtækið Knarr Russia sem er með aðsetur í  Moskvu.  Þar mun sölu- og markaðsdeild vinna að því að koma upp þjónustumiðstöð til að þjónusta þau fyrirtæki sem við erum að vinna með og eru að kaupa okkar búnað.“

Haraldur segir að nýjasta verkefnið sem verkefnið sem Skaginn3X, Frost ásamt Rafeyri á Akureyri hafa nýlega landað er sala á fullkominni 800 tonna uppsjávarvinnslu á Kuril eyjum til útgerðarfyrirtækisins Gidrostroy sem er eitt af stærri útgerðarfyrirtækjum í Austur Rússlandi með gríðarstóran kvóta.  Knarr Russia mun leiða uppsetningu, tækniaðstoð og kennslu á búnaðinn í mjög nánu samstarfi við Knarr félögin sem þarna eiga hlut að máli ásamt Rafeyri.

„Það eru fleiri slík verkefni í uppsiglingu og eru þau á loka metrunum í samningaferlinu,” segir Haraldur.