„Fiskeldi hefur vaxið hratt á heimsvísu, en sami gangur hefur ekki verið í íslensku fiskeldi,“ segir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Vinnslu, virðisaukningar og eldis hjá Matís, í viðtali á heimsíðu félagsins.
Hann segir Íslendinga hafa aflað upp undir 2% af heimsafla veidds fisks, en Íslendingar ali eingöngu um 0,01% af heildar fiskeldisframleiðslu heimsins. „Vilji Íslendingar gegna sama hlutverki við matvælaframleiðslu úr fiskmeti hér eftir sem hingað til, er ljóst að mikið verk er fyrir höndum,“ segir Arnljótur og bætir við að Íslendingar hafi gert sér vonir um mun öflugra fiskeldi hér á landi en reyndin hefur orðið. „Hvort sem sjónum er beint að fæðuöryggi á norðurslóðum eða öryggi þeirra matvæla sem framleidd eru hér og seld víða um heim, er augljóst að íslenskt fiskeldi verður að vaxa. Því verður að vanda til verka við rannsóknir í þágu fiskeldis og við þróun þess hér á landi. Bleikja sem hefur fram að þessu borið uppi fiskeldi á Íslandi er smátegund í hnattrænu samhengi,“ segir Arnljótur.
Sjá nánar http://matisvefur.eplica.is/um-matis/frettir/nr/3792