Nýja-Sjáland, Bandaríkin, Ísland, Noregur og Rússland eru þau fimm ríki sem stjórna fiskveiðum sínum best í heiminum. Þetta kemur fram í athugun sem gerð var á vegum vísindamanna við sjávarútvegsfræðideild háskólans í Washington.

Kannað var fyrirkomulag á stjórn fiskveiða hjá 28 ríkjum og í þeirra hópi voru 20 mestu fiskveiðiþjóðir heims. Við mat á frammistöðu ríkjanna var gengið út frá því að þrír þýðingarmestu þættir góðrar fiskveiðistjórnar væru traust vísindalegt mat á fiskistofnum, að dregið hefði verið úr sóknarþunga og að reglugerðum væri fylgt vel eftir.

Frá þessu er greint í frétt á vef SeafoodSource. Þar er jafnframt rætt við frammámann í nýsjálenskum sjávarútvegi sem bendir á að 96,8% af veiðum Nýsjálendinga sé úr sjálfbærum tegundum og að 70% af úthafsveiðum þeirra séu vottaðar af MSC.