Íslendingar og Færeyingar hafa fengið óvæntan norskan liðsmann í makríldeilunni. Það er Peter Örebech lögfræðingur og aðstoðarprófessor við Sjávarútvegsskóla Noregs í Tromsö. Hann ritaði nýlega grein í Fiskerikanditaten, sem er tímarit nemenda við skólann. Þar segir hann að Ísland og Færeyjar séu í fullum rétti að krefjast hluta af makrílkvótanum.
,,Það er rangt af Noregi og Evrópusambandinu að benda að Ísland og Færeyjar sem sökudólga í þessari deilu,“ segir hann og vísar til þess að samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna hafi Íslendingar og Færeyingar rétt til að krefjast hluta úr fiskistofnum sem finnist í efnahagslögsögum þeirra. Norðmenn og ESB verði að minnka hlut sinn í samræmi við aukna vestlæga og norðlæga útbreiðslu makrílstofnsins.
Frá þessu er skýrt í grein í Fiskeribladet/Fiskaren í síðustu viku. Haft er eftir Örebeck að auk þess að taka mið af ástandi og útbreiðslu fiskistofnsins, hefðum og veiðimynstri nýrra og eldri veiðiþjóða og þátt þeirra í því að stjórna stofninum og vernda hann, þá þurfi líka að taka tillit til þess hve háð viðkomandi samfélög séu fiskiauðlindinni í hafinu.
,,Norðmenn og ESB-ríkin hafa miklu fleiri stoðir að standa á en Íslendingar og Færeyingar sem að stórum hluta þurfa að reiða sig á fisk. Þetta þarf að taka með í reikninginn þegar kvótanum er skipt,“ segir Örebech.
Því má bæta við að nýr fundir í makríldeilunni hófst í Noregi í dag og stendur fram á föstudag. Haft er eftir Tómasi H. Heiðar aðalsamningamanni Íslands í Fiskeribladet/Fiskaren að hafréttarsáttmáli SÞ veiti strandríkjum rétt til þess að nýta fiskistofna innan eigin lögsögu og bendir á að 1,1 milljón tonna af makríl hafi komið á Íslandsmið á síðasta sumri. Þessi makríll hafi aukið þyngd sína um 60% meðan á dvölinni stóð eða fjórum sinnum meira en sem nemi 150.000 tonna makrílkvótanum sem Íslendingar ákváðu sér til handa í fyrra.