Kristrún RE er við veiðar á grálúðu norður af landinu og hefur fiskast nokkuð vel að undanförnu, að sögn Árna Jóhannesar Bjarnasonar stýrimanns. Áhöfnin lenti í dálitlu brasi skömmu áður en farið var í túrinn vegna vélarbilunar og á veiðisvæðinu var svo ís að plaga menn.

Í Kristrúnu RE framleiðir vélin rafmagn inn á rafmótor sem snýr skrúfunni. Bilun varð í tíðnibreyti í búnaðinum rétt fyrir utan gömlu höfnina í Reykjavík. Kallaðir voru til dráttarbátar en áður en aðstoð barst hafði tekist að laga búnaðinn og skipið gat siglt fyrir eigin vélarafli.

Tæp tvö ár eru síðan settur var nýr vinnslubúnaður á dekkið á Kristrúnu og frystibúnaðurinn uppfærður.

„Þetta hefur verið alveg þokkalegt eftir sjómannadag en við lentum í ís þegar við komum á svæðið. Þetta var ekki mikill ís heldur ein spöng sem fór hérna yfir en við lentum í henni. Hún tók baujuna af nokkrum trossum en belgirnir héngu á þannig að við misstum engar trossur,“ segir Árni.

Minni veiði en áður

Ísspöngina rak í suður og er íslaust á grálúðuslóð núna. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem áhöfnin á Kristrúnu RE hefur náin kynni af hafís því á síðasta ári varð hún fyrir því óláni í svartaþoku að sigla á borgarísjaka á Grænlandssundi. Oft má eiga von á borgarísjökum á þeim slóðum. Árni segir mun minni veiði nú á þessu svæði en var fyrir nokkrum árum.

Annað árið í röð ráðleggur Hafrannsóknastofnun að dregið verði úr veiðum á grálúðu; að farið verði úr tæpum 20 þúsund tonnum á yfirstandandi fiskveiðiári í 17.900 tonn á því næsta. Fiskveiðiárið 2022/2023 ráðlagði stofnunin að veiðar færu ekki yfir 26.710 tonn. Árni segir þetta nokkuð í samræmi við sína upplifun á miðunum. Það sé ekki jafn mikil veiði og verið hafi áður.

Þrjú skip gera út á grálúðu allt árið, þ.e.a.s. Kristrún RE, Guðmundur í Nesi RE og Snæfell EA. Á Kristrúnu er grálúðan hausuð, sporðskorin og fryst. Túrinn tekur yfirleitt um einn mánuð og tvær áhafnir eru á skipinu.