Fiskvinnslufyrirtækið Ísfiskur hefur fest kaup á röntgenstýrðri skurðarvél frá Völku ehf. Með kaupunum ætlar Ísfiskur að skapa sér grundvöll til að auka verðmæti framleiðslunnar og í leiðinni afkastagetu í vinnslunni. Skurðarvélin mun skera beingarð sjálfvirkt úr þorsk- og ýsuflökum og í leiðinni skera flökin í þá bita sem óskað er hverju sinni. Búnaðurinn var fyrst settur á markað fyrir tæpum tveimur árum og er þess skemmst að minnast að Gjögur setti hann nýlega upp í fiskiðjuveri sínu á Grenivik.

"Við gerðum ítarlegar prófanir sem gáfu til kynna að nýtinga- og afkastaaukning munu tryggja hraða endurgreiðslu á fjárfestingunni", segir Albert Svavarsson  framkvæmdastjóri Ísfisks. "Við viljum ávallt vera í fremstu röð með tæknibúnað  til að tryggja samkeppnishæfni félagsins enda erum við að kaupa nær allan fisk fyrir vinnsluna á fiskmarkaði. Þessi nýja tækni gefur Ísfiski möguleika á samkeppnisforskoti vegna beinlausrar vöru og að geta svarað þörfum markaðarins betur með nákvæmari skurði á afurðum“.

Samhliða þessu hefur Ísfiskur aukið frystigetu fyrirtæksins um 50% með kaupum á frystibúnaði frá Frostmarki. Þessi má geta að öll fyrirtækin þrjú, Ísfiskur, Valka og Frostmark eru staðsett í Kópavogi og því hefur ekki þurft að leita langt að þessu sinni.