„Með þessari lausn mun fyrirtækið auðvelda störf í vinnslunni og auka pökkunargetu, sem er stórt framfaraskref fyrir starfsemi þess,“ segir í tilkynningu frá Ísfélaginu þar sem félagið er sagt hafa tekið stórt skref í að auka sjálfvirkni og skilvirkni í bolfiskvinnslu með kaupum á Robobatcher Box frá Marel.
Raðar í kassa með mikill nákvæmni
„Nýja Robobatcher Box lausnin hjá Ísfélaginu er hönnuð til að raða bakflökum og hnökkum í 3 eða 5 kg kassa með mikilli nákvæmni og hraða, í samræmi við meðalþyngd og stykkjafjölda. Lausnin er tveggja brauta pökkunarlína sem flokkar og raðar ferskum bitum í frauðkassa, ásamt færslukerfi, tékkvogum og límmiðaásetningu. Með þessari fjárfestingu, sem var hluti af stækkunarverkefni með nýjum lausfrysti, leysir Ísfélagið vanda við pökkun ferskra afurða á hagkvæman hátt án þess að fjölga þurfi starfsfólki á línunni,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að í frystihúsinu í Vestmannaeyjum sé bolfisksalurinn nánast allur frá Marel. Þar megi finna FlexiTrim, FlexiCut, FlexiSort og tveggja brauta vippuflokkara. Allar vogir í húsinu séu frá Marel, sem og nokkrir Smartline Flokkarar í uppsjávarlínunni. Auk þess hafi nýlega verið keyptar flæðivogir fyrir uppsjávarlínuna.
Spenna fyrir áframhaldandi samstarfi
„Við erum afar stolt af því að styrkja enn frekar samband Marel og Ísfélagsins,“ er haft eftir Sindra Magnasyni, sölumanni hjá Marel. „Ísfélagið hefur treyst á okkur í mörg ár sem samstarfsaðila, og við erum spennt fyrir því að styðja við áframhaldandi vöxt þeirra,“ bætir hann við.
Þá segir að með nýju lausunum hafi bolfisklína hússins verið tæknivædd að miklu leyti. Framtíðaráform Ísfélagsins felist í áframhaldandi sjálfvirkni og hagkvæmni
„Ef Marel heldur áfram að þróa lausnir sem bæta afkomu framleiðslulínunnar, þá höldum við áfram að velja Marel. Við erum spennt fyrir þeim möguleikum sem tæknivæðingin býður upp á,“ er haft eftir Birni Brimari Hákonarsyni, framleiðslustjóra Ísfélagsins.
Fyrirtækin framarlega á sínum sviðum
Um Ísfélagið segir að það geri út fjölbreyttan flota, þar á meðal fjögur uppsjávarskip, einn frystitogara, tvö bolfiskskip og einn krókabát. Félagið reki vinnslustöðvar í Vestmannaeyjum, á Þórshöfn og Siglufirði, þar sem frystihús, fiskimjölsverksmiðjur og rækjuvinnsla spili lykilhlutverk.
Þá segir að Marel sé í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu. „Marel var stofnað árið 1983 og hjá félaginu starfa um 7.200 starfsmenn í yfir 30 löndum (þar af um 710 starfsmenn á Íslandi) og þjónusta viðskiptavini í yfir 140 löndum. Lykilmarkaðir félagsins eru í vinnslu alifugla, kjöts, fisks, gæludýrafóðurs, plöntupróteina og fóðurs fyrir fiskeldi,“ segir í tilkynningunni þar sem einnig er farið yfir samstarf fyrirtækjanna tveggja.
Viðskipti við Marel frá árinu 1983
„Ísfélagið var einn fyrsti viðskiptavinur Marel við stofnun þess. Hraðfrystistöðin, sem síðar sameinaðist Ísfélaginu, lagði inn eina af fyrstu pöntunum á vogum frá Marel árið 1983, þegar Marel var lítið verkstæði í Garðabænum með tvo starfsmenn. Þessi fyrsta vog var mikilvæg tækniframför og var í notkun í áratugi. Reyndar eru það aðeins nokkrar vikur síðan Ísfélagið hætti að nota saltfiskvog með raðnúmerið 41, sannkallaðan safngrip. Vogin, sem hóf feril sinn við saltfiskvinnslu, endaði sem heilpakkavog við gæðaskoðun á pökkuðum uppsjávarafurðum. Samband Marel og Ísfélagsins hefur dafnað og styrkst í gegnum árin, þar sem Marel hefur útvegað lausnir sem hafa stuðlað að hagkvæmni og þróun í vinnslu Ísfélagsins,“ segir í tilkynningunni frá Ísfélaginu.