Niðurstöður rannsóknar á leturhumri sýna að minnsta kosti fjögur erfðafræðilega aðgreind svæði þar sem hann er að finna. Enginn erfðafræðilegur munur reyndist á milli humars í Breiðamerkurdjúpi suðaustur af Íslandi og humra á Porcupine Banka djúpt vestur af Írlandi. Þessir stofnar, ásamt öðrum stofnum við Írland, voru hins vegar aðgreindir frá stofnum bæði í Norðursjó og suðlægari svæðum.

Í frétt Hafrannsóknastofnunar segir að þessar niðurstöður séu í samræmi við eldri rannsókn á stofngerð humars við Ísland sem greindi ekki mun milli svæða innan Íslands og nálægra landa, en jafnframt þess sem er t.d. vitað um rek skötusels frá suðlægari slóðum.

Þetta kemur fram í grein sem birt var nýlega í tímaritinu Journal of Sea Research um stofnerfðafræði leturhumars. Jónas Páll Jónasson, sérfræðingur á Botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar, er einn höfunda.

Leturhumarinn er mikilvæg nytjategund í Evrópu, en um 60.000 tonnum er landað árlega og er veiðum stjórnað á um 40 aðskildum svæðum frá Miðjarðarhafi norður til Íslands. Í greininni var stofngerð leturhumars metin með nýstárlegum aðferðum sem raðgreindu DNA-örtungl (microsatellites).