Írskir vísindamenn kynna sér nú þekkingu sjómanna - sem eru ekki alltaf sammála fiskifræðingum frekar en íslenskir sjómenn - í viðamikilli rannsókn sem nú stendur yfir.

Rannsóknin fer fram á vegum nýrrar stofnunar við háskólann í Galway sem leggur stund á félags- og hagfræðilegar hafrannsóknir. Tekin eru viðtöl við einstaka sjómenn um sögulegar veiðar á báti þeirra, hvaða veiðarfæri eru notuð og hvaða tegundir þeir veiða. Þeir greina einnig frá veiðislóð og þeim breytingum sem þeir hafa tekið eftir í áranna rás. Markmiðið með því að kanna fiskifræði sjómannsins er, að sögn þeirra sem að verkefninu standa, að nýta þessa þekkingu við írsk/evrópska stjórn fiskveiða. Þeir segja að nú þegar hafi komið í ljós að írskir sjómenn hafi hugsanlega einstæða þekkingu, ekki aðeins á vistfræði sjávar heldur einnig á félagslegri og efnahagslegri þýðingu fiskveiða.

Sjómenn hafa gjarnar dregið í efa fullyrðingar fiskifræðinga um þverrandi og ofveidda fiskistofna í sjónum en vakin er athygli á því að það kunni að koma mönnum á óvart að þessu var ólíkt farið hér áður fyrr. Á seinni hluta 19. aldar lýstu sjómenn miklum áhyggjum yfir því að fiskstofnarnir væru að eyðast en leiðandi fiskifræðingar þeirra tíma sögðu þeim að hafa ekki neinar áhyggjur – þessir stofnar væru óþrjótandi auðlind!