Írskt sjávarútvegsfyrirtæki í Donegal-sýslu er grunað um að hafa greitt mútur til leiðtoga í ónefndu Afríkuríki í skiptum fyrir fiskveiðiréttindi. Talið er að fleiri sambærileg mál séu í uppsiglingu, að því er fram kemur á fréttavefnum Seafoodsource.com
„Það kæmi mér ekki á óvart ef við sæjum meira af þessum málum skjóta upp kollinum á heimsvísu,“ er haft eftir Sven Biermann, yfirmanni Fisheries Transparency Initative, samtökum sem hvetja til gagnsæis í sjávarútvegi. „Hingað til hefur oft verið vanmetið hve verðmætur fiskur er orðinn.“
Hvorki fyrirtækið né Afríkulandið hefur verið nafngreint, og ekki heldur leiðtoginn, og ekki kemur fram hvers konar leiðtogi það er – þjóðarleiðtogi eða eitthvað annað.