Verðmæti írskra sjávarafurða gæti numið um einum milljarði evra (um 160 milljörðum ISK) árið 2020 og skapað um 3 þúsund ný störf, að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum fis.com. Vitnað er í upplýsingar frá opinberri stofnun, An Bord Iascaigh Mhara (BIM), sem hefur það hlutverk að efla írskan sjávarútveg.

Írskur sjávarútvegur framleiðir nú afurðir fyrir um 822 milljónir evra á ári (131 milljarð ISK) og í greininni starfa um 11 þúsund manns. Mikill vöxtur varð í útflutningi sjávarafurða frá Írlandi milli áranna 2011 og 2012 eða 18%. Alls námu útfluttar sjávarafurðir frá Írlandi um 493 milljónum evra árið 2012 (um 79 milljörðum ISK).

Bakslag hefur verið á helstu mörkuðum fyrir írskar sjávarafurðir í Evrópu en Írar vilja leggja áherslu á markaðssókn í Kína. Á vegum BIM er í gangi sérstakt verkefni til að styðja við bakið á írskum fiskútflytjendum varðandi markaðs- og þróunarstarf. Í það verkefni verður veitt um 400 þúsund evrum (64 milljónum ISK).