Síðasta sumar samþykkti Alþingi bráðabirgðaákvæði sem heimilar íslenskum útgerðum að leigja sér erlend skip til að hefja veiðar á bláuggatúnfiski. Þetta ákvæði stangast hins vegar á við samþykktir Alþjóðatúnfiskráðsins (ICCAT) og er því í reynd innihaldslaust á meðan ekki verða gerðar breytingar á samþykktum ICCAT.

„Þessi aðgerð var nauðsynleg en ekki nægileg svo að veiðar gætu hafist með erlendum leiguskipum á Austur-Atlanstshafsbláuggatúnfiski,“ segir í svari matvælaráðuneytisins við fyrirspurn frá Fiskifréttum. „Samþykktir ICCAT hafa að geyma ákvæði þar sem slík leiga (e. Chartering) er óheimil. Því yrði einnig að ná fram breytingu á samþykktum ICCAT til að þessi aðferð við veiðar gæti náð fram að ganga. Þar sem samþykktir ICCAT eru óbreyttar er ekki hægt að heimila slíkt þótt íslensk lög standi því ekki í vegi út árið 2028.“

Að sögn ráðuneytisins var þessi lagabreyting gerð að ósk Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi,

Berist ekki umsókn

Ráðuneytið tekur fram að ef ekki hefur borist fullnægjandi umsókn til Fiskistofu um leyfi fyrir íslenskt skip til veiða á bláuggatúnfiski fyrir 1. júní næstkomandi muni ráðuneytið kanna hvort hægt sé að framselja hluta af hinum íslenska leyfilega heildarafla til samstarfsríkja innan ICCAT í samræmi við reglur ICCAT.

„Það er því mögulegt,“ segir ráðuneytið í svari sínu, „að annað ríki innan Alþjóðlega túnfiskveiðiráðsins komi til með að veiða hluta aflaheimildanna innan íslenskrar lögsögu ef samningar næðust um slíkt fyrirkomulag. Slíkt kemur þó ekki til skoðunar fyrr en eftir 1. júní næstkomandi þegar það liggur fyrir hvort íslenskar útgerðir hafi sótt um veiðileyfi.“

Ekki hljómgrunnur

Ráðuneytið segir að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafi „óskað eftir slíkri heimild til að mynda hvata til þess að veiðar gætu hafist.“

Ekki sé hægt að segja til um hvort þessum ákvæðum verði breytt hjá ICCAT á næstu árum og telur ráðuneytið „ekki rétt að orða væntingar um það.“

Slíkar breytingar myndu hafa víðtækari áhrif á veiðar en einungis hér við land.

Hins vegar þurfi veiðar á bláuggatúnfiski að vera í samræmi við bæði íslensk lög og reglugerðir og samþykktir ICCAT. Ekki hafi verið hljómgrunnur fyrir því innan ICCAT að gera þær breytingar á ákvæðum ICCAT um leiguskip sem þurfi til þess að hægt væri að stunda veiðar með erlendum leiguskipum. Ráðuneytið muni hins vegar áfram halda á lofti hagsmunum Íslands og taka virkan þátt á vettvangi ICCAT.

Eftirsóttar heimildir

Fiskifréttir hafa áður sagt frá því að af alls 1.292 tonna kvóta sem Ísland hefur fengið úthlutað frá því það gerðist aðili að túnfiskráðinu 2002 hafi aðieins veiðst á milli 80-90 tonn af þessum verðmæta fiski á þessum tveimur áratugum, og eru þá teknar með bæði beinar veiðar og meðafli. Þetta eru innan við 7% af úthlutuðum kvóta.

Það sem er í húfi fyrir Ísland er túnfiskkvóti Atlantshafstúnfiskráðsins sem mikil eftirsókn er eftir. Ljóst sé að nýti Íslendingar ekki kvótann ár eftir ár geri aðrar þjóðir kröfur um að fá hann, til að mynda Evrópusambandið og Norðmenn. Með samstarfi við erlenda aðila um túnfiskveiðar fengist þekking og reynsla hér innanlands á þessum sérhæfðu veiðum og jafnvel grundvöllur fyrir því að íslensk útgerðarfyrirtæki fjárfestu síðar meir í sérhæfðum túnfiskveiðiskipum.

Strangari reglur

„Um veiðar á túnfiski gilda ítarlegri reglur en gengur og gerist um aðra stofna og er það vegna sérstöðu fisksins sem er víðförull göngufiskur og getur verið mjög verðmætur,“ segir í fyrrnefndu svari frá Matvælaráðuneytinu.

Íslensk lög gera almennt ráð fyrir að íslensk skip stundi veiðar á grundvelli íslenskra veiðiheimilda, þannig að með lögunum sem samþykkt voru á þingi í fyrra voru gerðar breytingar á þessu með sérstöku bráðabirgðaákvæði sem gildir sem fyrr segir til ársins 2028.

Ákvarðanir um úthlutun heimilda til veiða á bláuggatúnfiski eru hins vegar teknar á vettvangi ICCAT.