Á síðasta ári minnkaði innflutt hráefni til fiskvinnslu um 66% í tonnum talið miðað við árið á undan. Alls voru flutt inn 44.000 tonn af fiski samanborið við.131.000 tonn árið á undan.

Í þessu dæmi vegur langþyngst að mun færri erlend uppsjávarskip lönduðu afla sínum Íslandi á árinu 2009 en árið 2008. Landaður kolmunnaafli erlendra skipa dróst til dæmis saman úr 60.000 tonnum í 13.000 tonn og má m.a. rekja það til minni kolmunnakvóta. Þá dróst landaður síldarafli erlenda skipa á Íslandi saman úr 13.000 tonnum í 4.000 tonn.

Af botnfisktegundum er þorskur jafnan veigamestur í innfluttu hráefni. Í fyrra voru aðeins flutt inn 500 tonn af þorski til vinnslu samanborið við tæplega 3.900 tonn árið áður. Alls voru flutt inn 22.000 tonn af rækju til vinnslu í fyrra samanborið við 29.000 tonn árið 2008.

Heildarverðmæti innflutts hráefnis til vinnslu á Íslandi nam 6,2 milljörðum króna á síðasta ári en var 8,1 milljarður árið á undan.

Nánar á vef Hagstofu Íslands, HÉR.