Vegna eyðileggingarinnar af völdum flóðbylgjunnar í Japan gæti dregið mjög úr  eða jafnvel tekið alveg fyrir kaup Japana á túnfiski frá Evrópu en Japan er lan mikilvægast markaðurinn fyrir bláuggatúnfisk. Þetta kom fram á fundi fiskveiðinefndar Evrópusambandsins í gær þar sem túnfiskeldi í Evrópu var til umræðu.

Robert Mielgo Bregazzi túnfisksérfræðingur kvaðst hafa fengið þær upplýsingar að japanska ríkisstjórnin hefði fyrirskipað að innflutningi á túnfiski skyldi hætt. ,,Þeir ætla ekki að eyða peningum í innflutning á munaðarvöru,” sagði Bregazzi.

Japönsk stjórnvöld hafa ekki staðfest að innflutningsbann verði sett á, en Bregazzi sagðist hafa fengið vísbendingar í þá átt frá nokkrum spænskum túnfiskeldisstöðvum. Stöðvarnar hefðu fengið upphringingar frá viðskiptavinum sínum í Japan sem hefðu rift samningum sem gerðir hefðu verið fyrir náttúruhamfarirnar.

Frá þessu er skýrt á sjávarútvegsvefnum Fis.com