Equinor - áður Statoil - sem hefur séð íslenska markaðnum fyrir Marine Diesel Oil (MDO) fram að þessu, hefur tekið þá ákvörðun að hætta frá og með næstu áramótum sölu á þeirri olíu. Equinor mun eingöngu bjóða upp á olíu sem kallast DMA og er með 0,1% brennisteinsinnihald í stað 0,25% í MDO.

Þessar upplýsingar koma fram í tilkynningu sem Skeljungur sendi frá sér.

Skeljungur mun því líkt og N1 og önnur íslensk fyrirtæki sem selt hafa MDO hingað til hætta þeirri sölu og bjóða þess í stað upp á umrædda umhverfisvænni olíu.

Fiskifréttir sögðu frá því í gær að N1 tilkynnti sérstaklega um þetta skref fyrirtækisins. Nú liggur hins vegar fyrir að MDO olía með 0,25% brennisteinsinnihaldi verður alfarið tekin af markaði hér á landi.

Í tilkynningu N1 kom jafnframt fram að í ársbyrjun 2020 tekur gildi ný reglugerð, IMO 2020, en í henni felst að verulega verði dregið úr brennisteinsinnihaldi á svartolíu. Nú má hún mest vera 3,5% en frá og með 1. janúar 2020 má hún innihalda að hámarki 0,5% brennistein.

Með þessu skrefi sem nú er tekið er því ljóst að íslenski markaðurinn er að taka stærra skref en ný reglugerð Alþjóða siglingamálastofnunarinnar mun gera kröfu um.