Ingunn AK kom til hafnar á Vopnafirði laust fyrir hádegi í dag með um 530 til 540 tonna makrílafla. Þá var verið að ljúka löndun á makrílafla Faxa RE en Lundey NS var að veiðum á SA-miðum.
Aflabrögðin hafa verið mjög svipuð alla vertíðina. Makríllinn heldur sig á afmörkuðum svæðum en það er hægt að fá góða veiði ef maður hittir á réttu blettina,“ segir Róbert Axelsson, fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Ingunni.
Að sögn Róberts var fyrsta holið í veiðiferðinni tekið vestan við Hornafjarðardjúp og þar fengust um 170 tonn af makríl í tveimur holum.
,,Við færðum okkur svo norðaustur með kantinum og enduðum á að taka tvö hol á Berufjarðarálshorninu. Þar fengum við 360 til 370 tonn af makríl en síldar varð ekki vart í veiðiferðinni,“ segir Róbert.
Makríll veiðist nú víða fyrir sunnan landið. Á SA-miðum voru skip að veiðum í Berufjarðardjúpi og Litladjúpi og ágæt veiði hefur einnig verið út af SV-landi. Þar hafa frystiskip úr uppsjávarflotanum verið að veiðum auk togara, sem leyfi hafa til makrílveiða, og uppsjávarveiðiskipa frá Vestmannaeyjum. Makríllinn þar virðist vera nokkuð svipaður að stærð og sá sem veiðist fyrir austan.
Sagt er frá þessu á vef HB Granda.