Ingunn AK er nú á leið til Vopnafjarðar með um 1.000 tonna loðnuafla sem fékkst á veiðisvæðinu við Skarðsfjöru undan SA-landi í sjö köstum í gær. Að sögn Guðlaugs Jónssonar skipstjóra þurfti töluvert að hafa fyrir þessum afla.
,,Það voru ekkert sérstakar lóðningar og við lentum í því að rífa aðalnótina og þurftum því að nota varanótina. Í síðasta kastinu rétt fyrir kvöldmatarleytið í gær gekk hins vegar allt upp. Fallaskiptin breyttumst og við fengum rúmlega 300 tonn af loðnu í því kasti,“ segir Guðlaugur í samtali á vef HB Granda.
Svo virðist sem að loðnan sé loksins farin að ganga upp á grunnin við SA-land og Guðlaugur segist vera bjartsýnn á framhaldið.
,,Það er reyndar ekkert að marka það sem gerst hefur síðustu dagana. Til þess eru skipin, sem eru að veiðum, of fá. Þegar við héldum áleiðis til Vopnafjarðar í gærkvöldi þá lóðaði víða á loðnu, s.s. við Ingólfshöfða og Hrollaugseyjar og ég frétti af skipi sem lóðaði á loðnu í Lónsbugt.
Eins og staðan er nú þá einbeita menn sér að því að veiða fremst í loðnugöngunni, þar sem stærsta loðnan er á ferðinni. Aðrir staðir hafa lítið verið kannaðir. Miðað við hve loðnan er vel haldin þá kvíði ég ekki vertíðinni og mér kæmi ekki á óvart þótt við fengjum vestangöngu að þessu sinni. Þá er það jákvætt að orðið hafi vart við loðnu inni á Eyjafirði á þessum árstíma. Það hefur ekki gerst í fleiri ár en var ekki óvanalegt hér á árum áður,“ sagði Guðlaugur Jónsson.
Loðnan, sem nú er að veiðast undan SA-landi, er með um 15% hrognafyllingu sem er eðlilegt miðað við árstíma. Undanfarin ár hefur hrognataka ekki hafist að ráði fyrr en í lok febrúar en fyrrum var jafnan miðað við 3. mars í þeim efnum.
Af hinum uppsjávarveiðiskipum HB Granda er það að frétta að Lundey NS er á leið á miðin en Faxi RE er á Vopnafirði. Faxi var með um 600 tonn af loðnu í veiðiferðinni, sem lauk um helgina, og reiknað er með því að löndun ljúki seint í kvöld eða næstu nótt.