Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, telur að salan á Faxa RE og Ingunni AK, ásamt 0,67% af heimildum til veiða á loðnu og veiðarfærum til togveiða, sem greint var frá í morgun, sé bæði seljanda og kaupenda, Vinnslustöðinni, til hagsbóta. Þetta kemur fram á vef HB Granda.
Rifjað er upp að Ingunn hafi verið nýsmíðaverkefni HB á Akranesi og komið til landsins árið 2000. Faxamjöl, sem síðan rann saman við HB Granda, keypti Faxa sem þá hét Kap af Vinnslustöðinni árið 1996 ásamt 0,5% aflahlutdeildar í loðnu. Faxi var smíðaður 1987 en fór í miklar endurbætur árið 2000 þar sem skipið var meðal annars lengt og skipt um aðalvél. Árið 2012 var síðan sett nýtt öflugt RSW kælikerfi í Faxa.
Við þessi viðskipti minnkar aflahlutdeild HB Granda í loðnu úr 18,67% í 18,0% en hlutdeild Vinnslustöðvarinnar eykst að sama skapi.
Ingunn verður afhent Vinnslustöðinni 3. júlí nk. og Faxi um miðjan desember nk. Venus NS, fyrsta skip HB Granda í fimm skipa nýsmíðaverkefni, kemur til heimahafnar á Vopnafirði um næstu helgi og fer skipið til veiða á kolmunna seinni hluta næstu viku.
Seinna uppsjávarskipið sem félagið er með í smíðum í Tyrklandi, Víkingur AK, mun væntanlega koma til landsins í desember næstkomandi og miðast afhending Faxa við það. Lundey, sem er þriðja uppsjávarveiðiskip félagsins í dag, var lagt fyrr í vikunni. Afhending Ingunnar í byrjun júlí verður hins vegar til þess að væntanlega mun félagið gera Lundey út í sumar til veiða norsk-íslenskri síld og makríl ásamt Faxa og Venusi. Ráðgert er að áhöfn Ingunnar flytjist yfir á Lundey þar til Víkingur kemur til landsins.
Til framtíðar hyggst félagið eingöngu gera út tvö skip til uppsjávarveiða Venus og Víking, segir í frétt HB Granda.