Hefring Marine er hátæknifyrirtækni í hafsækinni starfsemi sem er að markaðssetja IMAS (Intelligent Marine Assistance System) snjallsiglingarkerfið sem notar gervigreind, gögn úr skynjurum og önnur gögn til að reikna í rauntíma og birta skipstjórnendum og flotastjórum leiðbeiningar til að auka öryggi og spara eldsneyti og þar með draga úr kolefnisfótspori útgerðar. Fyrirtækið hefur nú þegar gert stóra samninga við norska og hollenska aðila og má segja að IMAS-kerfið sé eitt af þeim mörgu íslensku öryggiskerfum fyrir haftengda starfsemi sem nú eru í útrás um víða veröld.

IMAS er fullþróað kerfi, sem upphaflega var hannað til að auka öryggi um borð í háhraða ferðaþjónustubátum með því að greina sjólag og siglingu. „Kerfið notar nú gögn í rauntíma til að spá fyrir um aðstæður og ráðleggja skipstjórnendum með hámarkshraða til að minnka líkur á slysum og skemmdum ásamt því að draga úr eldsneytisnotkun. Þannig er IMAS kerfið núna snjalllausn sem sameinar og greinir gögn sem eru aðgengileg um borð í bátum og skipum í rauntíma og breytir þessum gögnum í leiðbeinandi upplýsingar. Kerfið gefur þannig rekstraraðilum ítarlegan aðgang að margvíslegum gögnum úr vélum, siglingartækjum og öðrum búnaði og notar gögnin til að besta eldsneytisnotkun með tilliti til aðstæðna, tegund skipa og véla. Kerfið vaktar einnig stöðu búnaðar og véla um borð, fylgist með bilanaskilaboðum, veitir möguleika á að skilgreina siglingasvæði og klæðskerasauma viðvaranir og annað sem nauðsynlegt er að fylgjast með á hverjum tíma,“ segir Björn Jónsson, einn þriggja stofnenda Hefring Marine.

Björn Jónsson, einn stofnenda Hefring Marine.
Björn Jónsson, einn stofnenda Hefring Marine.

Markaðssetning gengið vonum framar

Í rauninni má segja að kerfið sé bæði stafrænn vaktari og aðstoðarmaður skipstjóra, tækni- og flotastjóri allt sameinað í eitt aðgengilegt kerfi. Þannig er á auðveldan hátt hægt að vakta allt sem er í gangi í hverju skipi og í flota útgerðar ásamt því að gefa möguleika á að vinna og koma upplýsingum til skila til hagaðila.

„Markaðssetning á IMAS kerfinu, bæði innanlands og erlendis, hefur gengið vonum framar frá því að kerfið var sett á markað snemma árs 2022. Fyrirtækið hefur frá þeim tíma gert fjölmarga leyfis samninga við ýmsa aðila víða um heim um notkun á snjall siglingarkerfinu, einkum við atvinnunotendur sem meðal annars reka skip sem þjónusta aflandsvindmillugarða, gera út báta og skip í ferðaþjónustu, útgerðir fiskibáta og skipa, sem og við strand- og löggæslu. Þá eru nokkrar sveitir sjóherja að prófa kerfið með það fyrir augum að setja það í stóra flota af aðgerða- og sérsveitarbátum. Nýlega gerði fyrirtækið samning við norska sjóbjörgunarsambandið um kaup á IMAS kerfinu í því skyni að koma því fyrir í öllum björgunarskipum sambandsins um gervallan Noreg. Þá er skammt síðan að Hefring Marine gerði samning við Loodswezen, sem eru samtök hafnsögumanna í Hollandi um kaup á kerfinu sem nú hefur verið komið fyrir í nýjustu skipum samtakanna ásamt því að kerfið er notað við þjálfun skipstjóra og áhafnar. Loodzwezen þjónustar allar helstu hafnir Hollands og fer í rúmlega 90.000 ferðir á ári við hafnsögu á skipum samtakanna.

IMAS-kerfið á skjá.
IMAS-kerfið á skjá.

Hefring Marine þróaði sérstaka hraðaleiðsögn fyrir skipstjóra Loodswezen sem bæði leiðbeinir um öryggis hraða miðað við aðstæður og sjólag en tekur einnig tillit til vélræns titrings til að draga úr langtíma áhrifum slíks titrings á áhöfn og farþega.

Lækkun iðgjalda

Björn segir að heimamarkaðurinn sé félaginu mjög mikilvægur meðal annars hvað varðar prófanir en það hefur einnig selt IMAS kerfið hér innanlands til ýmissa aðila, meðal annars til Landsbjargar sem hefur sett kerfið í nýjustu björgunarskip félagsins. Þá hafa aðilar í farþegasiglingum, innanlands og erlendis, sem hafa keypt kerfið, fengið enn frekari ávinning þar sem tryggingafélög hafa boðið lækkun á iðgjöldum þegar IMAS kerfið er tekið í notkun. Fram til þessa þá hafa notendur IMAS kerfisins siglt samtals sem nemur um einni milljón kílómetra í þrjátíu og fimm þúsund sjóferðum víðsvegar um heiminn. Markaðssókn Hefring Marine hefur einkum verið erlendis þar sem kerfið náði fyrst athygli flotastjórnenda viðbragðs- og séraðgerðaraðila á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum.

Bandaríkin framundan

Á næstu misserum þá mun Hefring Marine leggja aukna áherslu á markaðssókn í Bandaríkjunum á sama tíma og sölustarf verður aukið í Evrópu en um þessar mundir eru líka að opnast tækifæri á markaði fyrir skemmtibáta en fyrirtækið hefur fundið fyrir miklum áhuga á IMAS kerfinu hjá bátaleigum og bátaframleiðendum. „Þrátt fyrir áherslu á að sækja á markaði erlendis, þá hefur fyrirtækið mikinn áhuga á að fjölga verkefnum hérna heima og vill í því sambandi komast í samband við útgerðir báta og skipa sem hefðu áhuga á að skoða hvernig IMAS snjallsiglingarkerfið gæti dregið úr eldsneytisnotkun, bætt öryggi áhafnar og farþega á sama tíma að bæta yfirsýn og auka áherslu á fyrirbyggjandi viðhald,“ segir Björn.