Erna Jónsdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslu- og upplýsingasviðs Fiskistofu, segir að gripið hafi verið til ýmissa aðgerða í sumar til að hindra að strandveiðimenn kæmu með meiri afla til löndunar en þeim er heimilt. Árangurinn af því sé óviss.

Nokkuð var um það á vertíðinni í sumar að strandveiðimenn lönduðu uframafla. Sá afli dregst frá heildarpotti strandveiðanna og er því slíkt háttalag þyrnir í augum þeirra sem ná að fara að reglunum. Ekki er sektað fyrir slík brot en verðmæti umframaflans rennur hins vegar til ríkisins.

„Varðandi umframafla þá er reynt að koma í veg fyrir fjárhagslegan ávinning með því að leggja sérstakt gjald á aflann sem á að nema andvirði aflans,“ segir Erna. Fiskistofa birti einnig tuttugu hæstu í umframafla á strandveiðum á gagnasíðu sinni.

Umdeilanlegur árangur

„Þetta er til að reyna að vera með einhver varnaðaráhrif en svo má deila um árangurinn. Þá var breytt framkvæmd vegna byggðakvóta, það er að umframafli telur hvorki sem mótframlag né til ávinnslu byggðakvóta. Þá hefur líka verið til skoðunar hvort það ætti að beita viðurlögum í alvarlegustu tilfellunum,“ upplýsir Erna einnig.

Spurð hvort beita hafi þurft marga strandveiðimenn viðurlögum eða áminna fyrir brot í sumar og um hvað þau mál hafi snúist segir Erna að ekki sé enn búið að taka saman allar tölur í þeim efnum.

Æfingar til að fela eignatengsl

„En ég get upplýst um að það voru mun færri brottkast mál í ár en á undanförnum árum þannig að við erum að sjá að brottkast hefur minnkað. Umsóknakerfið hjá okkur er þannig útbúið að það eiga að koma upp eignartengsl útgerða séu þau til staðar. Við náum kannski ekki að koma 100 prósent í veg fyrir það, sérstaklega ef farið er í einhver æfingar við að sniðganga reglurnar en við höfum náð töluverðum árangri í að koma í veg fyrir þetta. Þá er töluvert um að eigandi sé ekki lögskráður um borð,“ segir Erna.

Tvær vikur bættust við

Þar sem úrvinnslu brotamálanna er ekki enn lokið segir Erna að enn hafi enginn strandveiðimaður verið áminntur eða sviptur veiðileyfi í sumar. „Slíkt gerist yfirleitt veturinn eftir,“ segir hún.

Strandveiðunum að þessu sinni lauk á miðnætti mánudagsins 16. júlí. Í lok júní hafði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra bætt tvö þúsund tonnum við upphaflegan tíu þúsund tonna kvóta.

„Samtals voru veiðidagar í ár 40 og ef ráðherra hefði ekki bætt við í pottinn hefði strandveiðum lokið í kringum 2. til 4. júlí,“ bendir Erna Jónsdóttir á.