Einar Hálfdánarson hefur verið á ígulkera- og sæbjúgnaveiðum fyrir austan, og segir hann veiðarnar í vetur hafa gengið ágætlega.
„Við vorum búin að fá rúm 20 tonn í Reyðarfirðinum af ígulkerjum, en þurftum að hætta út af því að það kom eitthvað upp á með hráefnið. Það voru eitthvað fjögur tonn eftir af kvótanum þar.“
Síðasta ígulkeratúrinn í bili fór hann í byrjun mars og fór þá með aflann til Fáskrúðsfjarðar. Annars hefur hann landað ígulkerum á Eskifirði en sæbjúgum á Neskaupstað, en þaðan gerir hann út.
„Ég var að klára og fór á Fáskrúðsfjörð með þessi tíu hol sem Hafró notar til að meta ástandið á þessu. Svo af því það var svo mikið að gera í vinnslunni sem er að verka ígulkerin þá fór ég bara á sæbjúgu. Ég ætla að prófa ígulkerin aftur þegar um hægist hjá vinnslunni.“
Einar hefur stundað tilraunaveiðar á ígulkerjum í Reyðarfirði samkvæmt reglugerðarheimild þar um. Fyrir ári mótmælti hann harðlega, meðal annars í viðtali hér í Fiskifréttum, því fyrirkomulagi sem var á þessum tilraunaveiðum, sagði það íþyngjandi og ákvað að hætta þeim veiðiskap. Ástandið segir hann þó allt annað núna.
Tíu hol fyrir Hafró
„Þetta hefur lagast, við fáum að núna að gera þetta sjálfir. Covidið setti þetta allt á hliðina og þá stoppaði allt. Það tók bara langan tíma að stugga við mönnum. Við gleymumst oft í þessu öllu þessir litlu karlar, það er eins og við þurfum ekki að lifa. En það var bara lagað og hefur verið í lagi síðan. Ekkert nema sjálfsagt að taka þessi tíu hol, það er bara hluti af ferlinu og ágætt að einhver fylgist með þessu.“
Aðspurður sagði hann býsna langt síðan hann fór að þreifa fyrir sér með veiðar á ígulekerum og sæbjúgum.
„Ég byrjaði bara að prófa, taka sýnishorn hingað og þangað. Það eru kannski tuttugu ár síðan. Ég var búinn að lesa um þetta í einhverju blaði, að þeir væru að gera þetta í Kanada.“
Þá var Einar á dragnót en ákvað að söðla um, keypti sér bát árið 2010 en segir að sér hafi reyndar gengið illa að komast inn í kerfið.
„Þetta var einhver happdrættisúthlutun. Einhverjir fengu leyfi sem ætluðu aldrei að nota þau og svo var þetta fast allt saman. Ég keypti mér bát í þetta, það var ísfirskur togbátur sem hét Brík en hét Inga hjá mér. Svo fékk ég ekkert leyfi og seldi hann en keypti þennan og var með hann í hinu og þessu þangað til ég komst inn í þetta aftur.“
Sá bátur hét Stundvís en fékk nafnið Eyji eftir að Einar keypti hann árið 2012.
„Þetta er eins og margt annað sem maður ætlar að gera, það strandar í kerfinu. En ég hef aldrei stækkað bátinn neitt, fór ekkert í samkeppni við þá sem eru að verka þetta. Hef haldið mig við að vera bara með plóg á litlum bát.“
Strandveiðarnar lítt spennandi
Á sumrin hefur Einar stundum farið á strandveiðar, en segir það ekki sérlega spennandi.
„Ég geri það ef ég nenni því, en það er svo leiðinlegt að maður þarf helst að vera búinn að gleyma því í eitt eða tvö ár áður en maður fer aftur.“
Hann var á sæbjúgnaveiðum fram eftir vetri en fór svo á ígulker eftir áramótin.
Ígulkerasvæðin hafa reynst gjöful í vetur, en veðrið hefur sett strik í reikninginn.
„Það voru þvílíkar brælur að maður man ekki eftir öðru eins. Ég held að ég hafi ekki náð 30 róðrum á fjórum mánuðum. Þetta voru alveg hræðilega lélegar gæftir, en svo var fín veiði þegar hægt var að fara. Í haust klikkaði bara aldrei róður og núna er líka fín veiði. En það er bara vetur,“ segir Einar og lætur það ekki á sig fá þótt veður á þeim árstíma séu ekki alltaf með besta móti.