Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt hækkaði um 2,0% í mars síðastliðnum, samkvæmt útreikningi IFS Greiningar m.v. tölur um framleiðsluverð í mars sem Hagstofan birti í morgun.
Afurðaverð hefur hækkað jafnt og þétt frá og með öðrum fjórðungi 2009. Verðið hefur hækkað um 5,2% síðustu 6 mánuði og um 7,1% síðustu 12 mánuði. Tölurnar undanfarna mánuði sýna að aðstæður á mörkuðum erlendis eru að ná betra jafnvægi.
Verð á fiskimjöli er mjög hátt eða 1.850 USD/tonnið. Hæst fór verðið í rétt ríflega 2.000 USD/tonnið á síðustu vikum. Verðið nú er hagstætt fyrir uppsjávarfiskfyrirtækin, sérstaklega m.t.t. kolmunnaveiða. Verð á sjófrystum botnfiskafurðum hækkaði mikið á síðari hluta ársins 2009 en nú hefur hægt á þeirri þróun.
Verð á saltfiski er enn fremur lágt enda er efnahagsástand á mikilvægum mörkuðum í S-Evrópu (Spánn, Portúgal) erfitt.
Afurðaverð í erlendri mynt er nú álíka hátt og um mitt ár 2006. Núverandi verð er að mati IFS ásættanlegt fyrir flest íslensku sjávarútvegsfyrirtæki.