Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur lokið endurskoðun á veiðiráðgjöf fyrir makrílstofninn í NA-Atlantshafi og leggur til minni veiði, að því er fram kemur á vef norska síldarsamlagsins.
Endurskoðunin var gerð að beiðni Noregs, Evrópusambandsins og Færeyja á síðasta ári, væntanlega með von um að hægt yrði að hækka veiðiráðgjöfina. Niðurstaðan ICES er sú að ef stuðla eigi að viðvarandi hámarksafrakstri stofnsins skuli lækka fiskveiðidánarstuðulinn úr 0,25 í 0,22. Það þýðir að minna verði veitt úr stofninum.
Í fyrrahaust urðu áðurnefndar þjóðir ásáttar um 1.054.000 tonna heildarafla á árinu 2015, sem skiptist þannig að þessar þjóðir taka 84,4% kvótans en skilja eftir 15,6% fyrir aðra (Íslendinga, Rússa og Grænlendinga). Í næsta mánuði verður haldinn fundur þar sem þessar nýjustu niðurstöður ICES verða til umræðu og endanlegur kvóti ákveðinn.