Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur ráðlagt veiðibann á loðnu í Barentshafi á árinu 2017, að því er fram kemur á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.

Ráðgjöfin byggist á niðurstöðum úr leiðangri Norðmanna og Rússa sem lauk í síðustu viku. Þar kom fram að minna mældist af fullorðinni loðnu en á sama tíma í fyrra.

Ráðgjöf ICES var tilkynnt í gær og verður hún til umfjöllunar hjá norsk-rússnesku fiskveiðinefndinni sem kemur saman dagana 17. til 20. október þar sem ákvörðun um loðnuveiðar í Barentshafi á næsta ári verður tekin. ICES lagði einnig til á síðasta ári bann við loðnuveiðum vegna ársins 2016 og þá var farið að ráðgjöf ICES.